Fyrsta Halloween plakat sýnir kunnuglegt fés

Ef að þú hafðir einhverjar efasemdir um að nýja Halloween hrollvekjan, sem verið hefur í umræðunni síðustu misserin, yrði að veruleika, þá geturðu hætt að hafa þær áhyggjur því búið er að birta fyrsta plakatið fyrir myndina.

Myndin er skrifuð af þeim David Gordon Green og Danny McBride og leikstýrt af Green. Það má segja að myndin á plakatinu komi ekki mikið á óvart …

Höfundur upphaflegu Halloween myndarinnar, John Carpenter, tengist myndinni sem ráðgjafi, en myndin byrjar mörgum árum eftir fyrstu myndina, og hugtökin „endurtekning“ og „áframhald“, eru víst einhverskonar þema í myndinni. Það sem er kannski merkilegast við þessa mynd, er að sjálf Jamie Lee Curtis, sem lék í fyrstu kvikmyndinni, er mætt til leiks að nýju, í hlutverki Laurie Strode, en nú sverfur til stáls í samskiptum hennar við raðmorðingjann grímuklædda Michael Myers, en hún slapp naumlega úr klóm hans fyrir 40 árum síðan.

Lítið meira er vitað að svo stöddu um myndina, nema þá að Judy Greer mun leika Karen Strode, dóttur Laure.

Will Patton, Nik Castle, Andi Matichak og Omar J. Dorsey eru sömuleiðis í leikhópnum.

Myndin mun byrja að hrella íslenska áhorfendur 19. október 2018.