Gwyneth Paltrow söng live á sviði í fyrsta skipti

Leikkonan Gwyneth Paltrow tók nýtt og djarft skref á framabrautinni í gær þegar hún sté á svið og söng „live“ í fyrsta skipti opinberlega á sviði fyrir framan áhorfendur. Lagið sem hún söng er titillag nýjustu myndar hennar Country Strong, en tónleikarnir fóru fram á hinni 44. árlegu sveitasöngva verðaunaafhendingu (CMAs) sem fram fór í höfuðvígi sveitasöngsins í Nashville í Tennessee fylki í Bandaríkjunum. Gwyneth uppskar standandi húrrahróp og fagnaðarlæti að söng loknum.
Gwyneth, sem var íklædd Atelier Versace kjól og lék undir á gítar ásamt Vince Gill, viðurkenndi fyrir tónleikana að hún hefði þurft að fá sér í glas til að róa taugarnar áður en hún steig á svið.
„Ég fór á barinn og fékk mér eina kollu af Guinness. Það er ný rútína hjá mér. Mér líður vel,“ sagði leikkonan og söngkonan áður en hún fór á sviðið.
Meðan á flutningi lagsins stóð brosti hún til áhorfenda og lokaði augunum, áður en hún fór að hlægja í lok lagsins.
Gwyneth var ekki eina stjarnan þetta kvöld til að stíga á svið og syngja. Kántrí stjarnan Taylor Swift söng Back to December, og Carrie Underwood lék tvö lög m.a., en hún var einnig kynnir kvöldsins.