Stúlkan í lestinni vinsælust í Bandaríkjunum

Þrjár nýjar kvikmyndir bitust um hylli áhorfenda í Bandaríkjunum nú um helgina, og sú sem hafði vinninginn var spennutryllirinn og ráðgátan Girl on the Train, með Emily Blunt í aðalhlutverki, sem einnig var frumsýnd hér á Íslandi um helgina.

emily blunt

Hinar nýju myndirnar tvær eru hin umtalaða Birth of a Nation eftir Nate Parker, sem þurfti að gera sér sjötta sæti bíóaðsóknarlistans að góðu, og fjölskyldumyndin skemmtilega Middle School: The Worst Years Of My Life, sem var sjöunda vinsælust.

Birth of a Nation sló í gegn á Sundance kvikmyndahátíðinni í janúar sl., en talið er að 17 ára gömul nauðgunarkæra á hendur leikstjóranum, þar sem hann var sýknaður, hafi haft neikvæð áhrif á aðsóknina.

The Girl on the Train fjallar um Rachel, sem Emily Blunt leikur, sem er miður sín eftir að hún skildi við manninn sinn, og flækist inn í mikla ráðgátu eftir að hafa orðið vitni að skelfilegu atviki út um lestarglugga.

The Birth of a Nation gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna og segir frá Nat Turner, læsum þræl og predikara, sem er seldur af blönkum eiganda sínum, Samuel Turner, til predika yfir ódælum þrælum. Hann verður vitni að miklum grimmdarverkum, bæði gagnvart sjálfum sér og öðrum þrælum. Hann skipuleggur uppreisn í von um að það verði til þess að frelsa fólkið.

Middle School: The Worst Years of My Life, er byggð á vinsælli skáldsögu James Patterson og segir frá Rafe Khatchadorian sem er kominn í sjöunda bekk og líst ekkert á að þurfa að díla við allt sem fylgir unglingsárunum, þ. á m. að þurfa að fylgja þeim reglum sem hinir fullorðnu setja honum. Á sama tíma þarf hann að glíma við að verða skotinn í stelpu í fyrsta sinn, verja sig fyrir skólabullunni, gæta þess að systir sín fari sér ekki að voða, sætta sig við stöðuga fjarveru sívinnandi móður sinnar og takast á við nýjasta unnusta hennar, hinn leiðinlega Carl.

Sjáðu Topp tíu listann bandaríska hér fyrir neðan:

1  The Girl on the Train
2 Miss Peregrine’s Home for Peculiar Children
3 Deepwater Horizon
4 The Magnificent Seven
5 Storks
6 The Birth of a Nation
7 Middle School: The Worst Years of My Life
8 Sully
9 Masterminds
10 Queen of Katwe