Segel og Blunt trúlofast til frambúðar

Það er tæpur mánuður í gamanmyndina The Five-Year Engagement hérlendis, en hingað til hefur umtalið verið ansi lítið í garð myndarinnar. Kannski hefur einkennilega markaðssetningin eitthvað með það að gera, enda auglýsa plakötin með stórum skærbleikum stöfum að hér séu „framleiðendur Bridesmaids“ að grafa eftir öðrum gullmola. Það er hins vegar ekki hæðsta viðurkenningin sem myndin má flagga, því Five-Year Engagement markar þriðju samstarfs-kvikmynd þeirra Jasons Segel og Nicholas Stoller. Hinar tvær eru auðvitað snilldar grínsmellirnir Forgetting Sarah Marshall og Get Him to the Greek frá árunum 2008 og 2010.

Að þessu sinni vinna þeir ekki með sömu karakterana, heldur leika Segel og Emily Blunt turtildúfurnar Tom Solomon og Violet Barnes. Stuttu eftir að þau trúlofast fara hjólin að snúast í lífum þeirra beggja sem frestar brúðkaupinu talsvert. Myndin fylgist með versnandi ástandi sambands þeirra í gegnum tíðina og vekur upp spurninguna hvort þau muni einhverntíman giftast.

Eins og áður var sagt þá kemur Five-Year Engagement í næsta mánuði, 11. maí til að vera nákvæmur, en í augnablikinu er Stoller að vinna að handriti Muppet-framhaldsins og Segel kemur fram í Knocked Up ‘spin-off’inu This Is 40.