Gangs of New York í sjónvarp

Miramax í samvinnu við Martin Scorsese hafa ákveðið að gera þáttaröð eftir kvikmyndinni Gangs of New York sem var gerð árið 2002 og var meðal annars tilnefnd til tíu Óskarsverðlauna.

Þáttaröðin mun fjalla um fæðingu og baráttu stærstu gengja Bandaríkjanna á seinni hluta 19 aldar, ekki aðeins í New York, heldur líka í Chicago og New Orleans.

„Þessi tími er fullur af litríkum persónum og sögum sem ekki er hægt að troða í eina kvikmynd. Sjónvarpsþáttaröð gefur okkur tíma og frelsi til að koma þessu öllu til skila.“ segir Scorsese.

Scorsese byggði kvikmyndina á samnefndri bók eftir Herbert Asbury og segir að bróðurpartur af þeirri bók hafi ekki komist fyrir í einni kvikmynd. Nú hefur hann tíma og rúm til þess að byggja sögur út frá öllum persónum og verður forvitnilegt að fylgjast með framhaldinu.

Ekki er vitað hverjir munu fara með hlutverk í sjónvarpsþáttunum og er talið mjög ólíklegt að sömu leikarar prýði hlutverkin að nýju.