Fúsi heimsfrumsýnd í Berlín

Fúsi, nýjasta kvikmynd Dags Kára, hefur verið valin til þátttöku á Berlinale, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín, sem fer fram frá 5. – 15. febrúar. Fúsi verður heimsfrumsýnd á hátíðinni og mun taka þátt í Berlinale Special Gala hluta hátíðarinnar, sem samanstendur af myndum sem eru sérstaklega valdar af Dieter Kosslick hátíðarstjóra. Valið er mikill heiður fyrir aðstandendur Fúsa, enda Berlinale hátíðin ein fárra svokallaðra „A“ hátíða í heiminum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.

Gunnar jónsson

Fúsi segir frá titilpersónunni Fúsa, sem er liðlega fertugur og býr einn með móður sinni. Líf hans er í afar föstum skorðum og lítið sem kemur á óvart. Hann minnir á unga sem hefur komið sér þægilega fyrir í hreiðrinu og hefur enn ekki haft kjark til að hefja sig til flugs. Þegar ung stúlka og kona á hans reki koma óvænt inn í líf hans, fer allt úr skorðum og hann þarf að takast á við ýmislegt í fyrsta sinn.

fúsi

Dagur Kári leikstýrir og skrifar handritið að Fúsa, sem er framleidd af þeim Baltasar Kormáki og Agnesi Johansen fyrir framleiðslufyrirtækið Sögn. Með aðalhlutverk fara Gunnar Jónsson og Ilmur Kristjánsdóttir. Tónlist myndarinnar er samin af Slowblow, hljómsveit sem samanstendur af Degi Kára og Orra Jónssyni. Meðframleiðslufyrirtæki er hið danska Nimbus Film (sjónvarpsþáttaröðin Broen og kvikmyndirnar Festen, Mifune‘s sidste sang og Submarino).

Dagur Kári hefur áður leikstýrt og skrifað handritið að kvikmyndunum Nói Albínói, Voksne Mennesker og The Good Heart. Allar þrjár hafa farið á fjölda kvikmyndahátíða víða um heim og unnið til verðlauna á þeim.

Á Berlinale Special Gala hafa fjöldi stórra mynda verið sýndar í gegnum tíðina, þeirra á meðal eru The King‘s Speech, Les Misérables, American Hustle og The Two Faces of January. Einnig hefur Berlinale Special gert klassískum myndum hátt undir höfði og t.a.m. sýnt myndirnar Metropolis og Taxi Driver.

Stikk: