Nýr íslenskur spennutryllir í bíó á morgun – hátíðarfrumsýning í gær

Nýr íslenskur spennutryllir, Vargur, eftir Börk Sigþórsson, sem bæði leikstýrir og skrifar handritið, var frumsýnd í gær í Smárabíói við hátíðlega athöfn að viðstöddum aðstandendum og rjómanum úr íslenskri kvikmynda og leikhúsflóru.

Myndin fer í almennar sýningar á morgun í Smárabíó, Háskólabíó, Laugarásbíó og Borgarbíó Akureyri.

Myndin segir frá bræðrunum Erik og Atla, en þeir hafa valið sér ólíkar leiðir í lífinu. Annar þeirra hefur haslað sér völl í fjármálakerfinu, en hinn er nýkominn út af Hrauninu. Báðir eru þó skuldum vafnir og ákveða að grípa til vafasamra aðgerða til að bjarga sér fyrir horn.

Hér fyrir neðan má sjá ávarp framleiðandans, Agnesar Johansen, og Barkar sjálfs áður en sýning myndarinnar hófst:

Þeir Gísli Örn Garðarsson og Baltasar Breki Samper eru í hlutverkum bræðranna, en Anna Próchniak, fer með stærsta kvenhlutverk myndarinnar auk þess sem Baltasar Kormákur er framleiðandi kvikmyndarinnar.

 

Kvikmyndir.is var viðstödd frumsýninguna í gær, og það er óhætt að mæla með myndinni fyrir áhugafólk um góða spennu. Án þess að spilla neinu úr söguþræðinum, þá nær ástand aðalleikkonunnar, alla myndina í gegn, að skapa óþægilega spennu, en einnig lokast hringurinn smátt og smátt um helstu persónur og leikendur og endar í miklu uppgjöri.

Kíktu á stiklu úr myndinni hér fyrir neðan: