Ólafur bjargar jólunum

Gríðarlegar vinsældir Disney teiknimyndarinnar Frozen, og góð sala á varningi tengdum myndinni, þýðir að Disney ætlar ekki að láta hér við sitja, heldur búa til fleiri ævintýri fyrir persónur myndarinnar. Næst á dagskrá er stuttmynd með snjókarlinum Ólafi í aðalhlutverki.

Myndin mun verða sýnd í tengslum við frumsýningu næstu Pixar mynd, Coco, sem væntanleg er í bíó hér á Íslandi 24. nóvember nk..


Stuttmyndin gerist í desember og jólin nálgast. Prinsessurnar Anna (Kristen Bell) og Elsa (Idina Menzel) komast að því sér til mikilla vonbrigða að eftir að hafa verið í einangrun nær allt sitt líf vegna ofurkrafta Elsu, og dauða foreldra þeirra, þá eiga þau sér enga jólasiði og venjur.

Ólafur, sem Josh Gad leikur, ákveður því að heimsækja hina og þessa um alla borgina til að komast að því hvernig þau halda upp á Jólin, og bjarga þannig hátíðinni fyrir prinsessurnar.

Myndin verður 21 mínúta að lengd og mun innihalda fjögur ný lög, en tónlistin úr fyrri myndinni sló eftirminnilega í gegn.

Til að fá enn meiri skammt af Frozen verða menn svo að bíða til 2019, þegar Frozen 2 kemur í bíó.

Kíktu á stiklu úr stuttmyndinni hér fyrir neðan: