Möguleg þynnka í Los Angeles

Þrátt fyrir slaka dóma tókst The Hangover: Part II að skila inn yfir $580 milljónum í kassann í ár og óhjákvæmilega þýðir það að þriðja myndin líti dagsins ljós áður en langt um líður.

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Todd Phillips vinnur núna hörðum höndum að handritinu og hingað til hefur hann gefið það í skyn að þessi þriðja mynd seríunnar verði sú seinasta, og með öllum líkindum mun hún loka henni með stæl. Það eru að minnsta kosti hans orð. Einn af aðalleikurunum „Wolfpack-gengisins“, Bradley Cooper, var í viðtali í spjallþættinum hjá Graham Norton og lét það í ljós að tökur byrji núna í september á næsta ári.

„Ég held að þessi muni gerast í Los Angeles,“ segir Cooper. „Hún mun ekki vera með sömu uppbyggingu og hinar tvær, heldur allt öðruvísi.“ Hann bætir því við að The Hangover: Part III muni klárlega loka seríunni og að mögulegur frumsýningartími verði í kringum maí-júní  2013.

Ætli þeir séu þá ekki búnir að útiloka Amsterdam? Eins og áður var gefið til kynna…