John Wick 3 í tökur í lok ársins

Löngu áður en spennutryllirinn John Wick: Chapter 2 kom í bíó í febrúar síðastliðinum, hafði leikstjórinn Chad Stahelski lýst því yfir að Lionsgate framleiðslufyrirtækið hefði beðið hann um að leggjast í hugmyndavinnu fyrir John Wick 3.  Stahelski staðfesti að eigandi Continental hótelsins, Winston, sem leikinn er af Ian McShane, og móttökustjórinn Charon, sem Lance Reddick leikur, myndu snú aftur, ásamt að sjálfsögðu aðalleikaranum Keanu Reeves.

Stahelski sagði frá því við blaðamenn, þegar hann var að kynna VOD útgáfu John Wick: Chapter 2, að hann væri í miðju kafi að skrifa handritið að mynd númer 3.


„Já, við erum núna á fullu að skrifa handritið. Þetta snýst aðallega um hvað við erum fljót að ná að koma þessu heim og saman. En ég myndi halda að tökur gætu hafist í lok ársins eða í byrjun næsta árs.“

Fyrsta John Wick myndin kom leikstjórum hennar, Chad Stahelski og David Leitch, rækilega á kortið, en í mynd númer tvö þá fóru þeir hvor sína leið, Stahelski leikstýrði Chapter 2 en Leitch gerði Atomic Blonde, sem kemur í bíó í sumar.

Báðir eru með flottar myndir á dagskránni, Chad Stahelski mun leikstýra Highlander endurræsingunni, og David Leitch leikstýrir Deadpool 2.

Keanu Reeves sagði frá því í podcasti nýlega að hann vildi að John Wick 3 byrjaði þar sem mynd númer 2 endaði, þar sem Wick myndi reyna að sleppa frá New York, en í lok annarrar myndarinnar sagði Winston að nú væru allir leigumorðingjar heims á eftir honum og hann nyti ekki lengur verndar Continental hótelsins.