Sicario 2 komin í gang – Verður Jóhann með?

Spennutryllirinn Sicario, sem Íslendingum er að góðu kunnur eftir að tónskáldið Jóhann Jóhannsson var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlistina í myndinni, hefur mögulega ekki sagt sitt síðasta orð, því í Hollywood eru menn byrjaðir að ræða um framhaldsmynd.

emily blunt

Myndin, sem var leikstýrt af Denis Villeneuve, þénaði um 80 milljónir Bandaríkjadala í miðasölunni um heim allan, en kostnaður var meira en helmingi minni, eða um 30 milljónir dala. Það var því engin risagróði af myndinni, en nóg til að menn séu farnir að ræða framhald.

Heyrst hefur að handritshöfundur fyrri myndarinnar, Taylor Sheridan, hafi verið að vinna handrit myndar númer tvö, þar sem fókusinn yrði settur á persónu Benicio Del Toro.

The Hollywood Reporter greinir svo frá því núna að framhaldið sé í raun komið á dagskrá hjá framleiðslufyrirtækinu Black Label Media, og framleiðsluferlið sé komið í fullan gang.

Uppkast að handriti er nú þegar sagt tilbúið, en framleiðendurnir segja að allir úr fyrri myndinni mæti til leiks í þeirri seinni, þar á meðal Emily Blunt og Josh Brolin.

Óvíst er hinsvegar með endurkomu leikstjórans Denis Villeneuve, og þá væntanlega einnig með Jóhann Jóhannsson.