Viggó Viðutan í bíó í vor – Fyrstu ljósmyndir

Flestir Íslendingar, amk. þeir sem eru komnir á fullorðinsár, muna líklegast vel eftir æringjanum Viggó  Viðutan, enda voru uppátæki hans í teiknimyndasögum André Franquin algjörlega kostuleg.

Bókaforlagið Iðunn gaf bækurnar út hér á landi á sínum tíma, en Forlagið hefur endurútgefið bækurnar nú síðustu ár.

Nú ættu aðdáendur Viggó að sperra eyru og augu og byrja að láta sig hlakka til, því von er á nýrri leikinni kvikmynd um Viggó sem verið er að gera í Frakklandi, en myndin ber franskt heiti Viggós; Gaston Lagaffe og er væntanleg í bíó 4. apríl nk.  Með hlutverk Viggó fer  Théo Fernandez en leikstjóri er Pierre-François Martin-Laval.

Á Facebook síðu myndarinnar voru í gær birtar fyrstu ljósmyndir úr myndinni og má sjá þær hér að neðan. Svo er bara að biðja þess að kvikmyndin rati hingað til lands sem allra fyrst!