Af hverju er Deadpool svona vinsæl?

Ofurhetjumyndin Deadpool hefur slegið rækilega í gegn  síðan hún var frumsýnd fyrir rúmri viku síðan. Aðsóknartekjur myndarinnar nema tæpum 500 milljónum dollara um heim allan, samkvæmt Boxofficemojo, en gerð hennar kostaði 58 milljónir dollara. Hagnaðurinn er því nú þegar orðin gífurlegur, eða hátt tæpar 450  milljónir dollara, sem gerir næstum því 60 milljarða króna.

deadool 3

Þessar ótrúlegu vinsældir eru merkilegar í ljósi þeirrar staðreyndar að myndin er stranglega bönnuð börnum (fékk R-stimpilinn í Bandaríkjunum sem þýðir að börn undir 17 ára aldri mega ekki sjá hana í bíó nema í fylgd með fullorðnum) enda orðbragðið oft á tíðum dónalegt og ofbeldið á köflum yfirgengilegt. Krakkar sem hingað til hafa flykkst í bíó til að sjá þessar hefðbundu ofurhetjumyndir (sem hafa oftast verið bannaðar börnum innan 12 ára) hafa því ekki fengið að sjá hana víðast hvar.

Þess vegna spyr blaðamaður The Guardian sig eðlilega hvort von sé á röð svipaðra ofurhetjumynda, sem eru stranglega bannaðar börnum, í bíó á næstu árum.

deadpool

Blaðamaður vefsíðunnar Flyckering Myth veltir fyrir sér hvernig standi á þessum vinsældum, því Deadpool er langt frá því að vera þekktasta myndasagnapersónan. Hér á eftir má lesa íslenska þýðingu á vangaveltum blaðamannsins.

Deadpool steig fram á sjónarsviðið á tíunda áratugnum og hefur því ekki haft tækifæri til að heilla heilu kynslóðirnar upp úr skónum með sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, myndasögum og leikföngum líkt og góðkunningjar okkar Bruce Wayne, Clark Kent og Pétur Parker hafa gert.

Þó má ekki gleyma því að Iron Man var ekkert sérlega þekktur á meðal almennings þegar fyrsta myndin um hann kom út. Síðan þá eru Iron Man-myndirnar orðnar þrjár og eiga vafalítið eftir að verða fleiri, enda sérlega vinsæll kvikmyndabálkur þar á ferð. Einnig hefur Iron Man komið við sögu í Avengers-myndunum og The Incredible Hulk.

deadpool 4

Það er auðvelt að halda því fram að allar ofurhetjumyndir njóti vinsælda. Þótt það sé að mestu leyti rétt eru þó undantekningar á þeirri reglu eins og Fantastic Four og Green Lantern bera vott um. Í þeirri síðarnefndu lék Deadpool sjálfur, Ryan Reynolds, einmitt aðalhlutverkið (Reynolds gerir einmitt grín að óförum sínum þar  í Deadpool). Það var því alls ekki öruggt að Deadpool myndi slá í gegn.

Markaðsherferð myndarinnar, sem hófst fyrir tveimur árum, hefur átt sinn þátt í vinsældunum. Hún var öðruvísi en margir eiga að venjast með ofurhetjumyndir og byggðist upp hægt og bítandi. Þegar Deadpool kom loksins út vissu menn að eitthvað öðruvísi og áhugavert var í vændum.

Ekki má heldur gleyma því að síðan Spider-Man hratt af stað miklu ofurhetjuæði í byrjun aldarinnar hafa fáar myndir leikið sér að hugmyndinni um ofurhetjuna eins og Deadpool gerir en verið á sama tíma alvöru ofurhetjumynd byggð á alvöru myndasögu. Hún er því sér á báti, því ekki er hægt að setja myndir á borð við Kick Ass og Mystery Men í sama flokk.

Deadpool er svöl persóna sem er einnig bráðfyndin á sinn kaldhæðnislega hátt. Í stað þess að hlegið sé að henni, þá veifar hún til áhorfenda og spjallar við þá eins og ekkert sé sjálfsagðara. Hún tekur sig því mátulega alvarlega, sem hefur fallið vel í kramið hjá bíógestum.

DEADPOOL

Sá sem var 12 ára þegar Spider-Man kom út og hefur alist upp við að horfa á hefðbundnar ofurhetjumyndir er orðinn 26 ára núna. Líklegt er að hann vilji aðeins grófara orðbragð, aðeins meira ofbeldi og aðeins meira kynlíf núna. Hann vill fá eitthvað sem hann kannast við en er um leið áhugavert.  Það hjálpar vissulega til að Deadpool er hluti af X-Men-heiminum en maður þarf reyndar ekki að vita mikið um hann til að njóta myndarinnar.

deadpool 1

Deadpool hefur verið í undirbúningi síðan árið 2000. Ef hún hefði komið út þá er ekkert víst að hún hefði slegið í gegn. Markaðsherferð myndarinnar á samfélagsmiðlunum var einstaklega vel heppnuð, þar sem persónunni var komið kirfilega fyrir í hugarfylgsnum markhópsins sem hún ætlaði sér að ná til.

Það virðist því eins og Deadpool hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti en það að hún hafi fengið góðar viðtökur er alls engin tilviljun. Velgengnin hennar er samt mun meiri en nokkurn óraði fyrir.