Bale ræðir um leik í mynd Baltasars Kormáks, Everest

Óskarsverðlaunahafinn Christian Bale á nú í viðræðum um að taka að sér hlutverk í mynd Baltasars Kormáks, Everest, en myndin fjallar um leiðangur á hæsta fjall veraldar, Mount Everest, árið 1996. Leiðangurinn lenti í miklu óveðri og átta menn dóu á tveim dögum, sem varð til þess að árið 1996 varð mannskæðasta árið á Mount Everest.

Þessi leiðangur hefur áður verið kvikmyndaður, en sjónvarpsmynd var gerð eftir frægri bók Jon Krakauer Into Thin Air sem fjallar um sömu ferðina. Baltasar hyggst, samkvæmt vefmiðlinum slashfilm.com, segja söguna frá annarri hlið þó sama bók verði lögð til grundvallar, og vinna m.a. úr viðtölum við fólk sem komst lifandi niður af fjallinu.

Samkvæmt Deadline.com þá er handritið í vinnslu hjá Justin Isbell, en aðstandendur myndarinnar eru Universal Pictures, ásamt framleiðslufyrirtækjunum Working Title  og Emmett/Furla.

Vísir.is hefur eftir Baltasar Kormáki að viðræður standi yfir en samningar séu ekki í höfn ennþá svo hann viti. „Já ég get staðfest það, það er verið að semja við hann en ég veit ekki hvort að samningar hafa náðst,“ segir leikstjórinn í samtali við vísir.is