Sony Pictures setur Everest í framleiðslu

Leikstjórinn Doug Liman er ansi upptekinn þessa daganna en ásamt því að leikstýra væntanlegu manga-myndinni All You Need Is Kill og reyna að halda sci-fi verkefninu Luna á lífi, hefur hann samþykkt að leikstýra nýrri mynd fyrir Sony Pictures að nafni Everest.

Everest er byggð á bók Jeffrey Archer frá árinu 2009 og fjallar um þrjár tilraunir George Mallory til að klífa upp á tind Everest fjallsins frá árinu 1920. Myndin mun einblína á brennandi löngun Mallorys til að komast upp á toppinn en allt á meðan hann þarf að glíma við heiftarlegan ríg frá öðrum klifrara, George Finch.

Bókin olli ansi miklum usla í Nýja-Sjálandi þar sem að hún heldur því fram að Mallory hafi verið fyrstur manna til að hafa náð á toppinn; en það er skráð í sögubækurnar að árið 1953 kleif Sir Edmund Hillary upp á toppinn og er hann ættaður frá Nýja-Sjálandi. Þegar að Mallory kleif í þriðja og síðasta skiptið upp fjallið árið 1924 voru hann og klifurfélagi hans, Andrew Irvine, séðir nálægt tindinum þegar að þeir hurfu inn í skýin og sáust aldrei aftur.

Það verður ansi áhugavert að sjá hvort að myndin muni valda eins miklum deilum og bókin gerði á sínum tíma.