Harry Potter spáð miklum vinsældum um helgina

Eins og einhverjir gætu hafa tekið eftir verður ævintýramyndin Harry Potter and the Deathly Hallows – Part I frumsýnd um helgina á heimsvísu. Er henni spáð gríðarlegum vinsældum um allan heim, en þar sem sérstaklega vel er fylgst með öllum viðskiptahliðum málsins í Bandaríkjunum er ekki úr vegi að sjá hvernig spárnar fyrir þá mynd líta út, nú á morgni frumsýningardags.

Vefurinn Box Office Mojo, einn aðalvefurinn í talnaupplýsingum um kvikmyndir, spyr lesendur í könnun á forsíðu sinni hversu vinsæl þessi sjöunda Harry Potter-mynd verði. Niðurstaðan er sú að um 75% lesenda spáir því að myndin fari yfir 120 milljónir dollara á frumsýningarhelgi sinni, en það yrði næststærsta nóvember-opnun sögunnar, á eftir New Moon, sem skellti 142 milljónum í kassann á sínum þremur fyrstu dögum í fyrra.

Annar vefur, HSX.com (Hollywood Stock Exchange), býður upp á gerviviðskipti með hlutabréf í kvikmyndum í stað þess að fá fólk til að spá fyrir um tekjur, og reynist oft nákvæmasti spámiðillinn af þeim öllum, þar sem eftirspurn ræður „verðmati“ kvikmynda. Þar er gengi Harry Potter jafnt því að myndin fái 119 milljónir dollara í kassann á frumsýningarhelgi sinni. Verður því spennandi að sjá hvort hún slær 120 milljóna múrinn, fyrst allra Potter-mynda, en The Goblet of Fire á enn stærstu frumsýningartölu seríunnar til þessa, þar sem hún tók inn tæpar 103 milljónir í nóvember árið 2005.

Svo verður ekki minna spennandi að sjá hvort Harry og félagar ná frumsýningarmeti ársins hér á Íslandi, en Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið á enn stærstu áhorfendatölu ársins, ef litið er til frumsýningarhelgar, með tæplega 10.400 manns.

Haldið þið að myndin nái þessum metum?

-Erlingur Grétar