Pólitík er eins og Eurovision

ÍSLENSK PÓLITÍK ER EINS OG EUROVISION
…ÞAÐ FINNST GAUKI ÚLFARSSYNI, LEIKSTJÓRA GNARR, Í ÞAÐ MINNSTA
Jón Gnarr og félagar komu öllum á óvart þegar Besti flokkurinn ekki bara bauð sig fram í borgarstjórnarkosningum, heldur vakti mikla athygli og vann sögulegan sigur. Afleiðingin: Grínistinn Jón er nú borgarstjóri Reykjavíkur og er á góðri leið með að breyta sýn heillar þjóðar á stjórnmál fyrir fullt og allt. Það sem færri vita er að Gaukur Úlfarsson, sem flestir þekkja sem annan af höfundum Silvíu Nætur-gjörningsins ógurlega, tók allt ferlið upp og er að leggja lokahönd á kvikmynd sem verður frumsýnd í nóvember. Ég sló á þráðinn til hans og heyrði hans sýn á þetta stórmerkilega ár sem hefur liðið síðan ferlið hófst.
Hvernig kom það til að þú fórst að taka upp kosningabaráttu Jóns Gnarr?
„Það er nú ekkert langt síðan ég kynntist Jóni. Ég kynntist honum bara þarsíðasta sumar og við „smullum“ strax og fórum að spjalla saman á hverjum degi uppfrá því og hittast á nánast hverjum degi og ætluðum okkur að skrifa saman eitthvað sjónvarpsefni, en svo var hann alltaf eitthvað að vasast í þessu Besta flokks-dæmi sínu og fór að tala svolítið um það. Mér fannst það til að byrja með ekki neitt rosalega spennandi. Mér fannst það eins og það gæti verið hallærislegt djók, svona djók sem hefur sést áður og aldrei farið neitt almennilega í gegn.“
En hvað breyttist?
„Við héldum bara áfram að pæla í því sem við vorum að vinna í og vorum að velta ýmsu fyrir okkur. En svo, einhverja nóttina, fyrir áramótin síðustu, þá kviknaði á einhverri peru í hausnum á mér og ég gat ekkert sofið. Ég sá allt í einu fyrir mér einhvern vinkil á þessu sem mér fannst mjög spennandi, allt í einu. Ég allt í einu varð mjög æstur fyrir þessu (hann hlær), en í raun og veru voru þetta ennþá bara hugdettur í hausnum á honum. Hann var ekki með neitt ákveðið, og var bara að reyna að finna eitthvað fyndið, slá um sig með kjánalegum frösum. Ég byrja svo tökur í desember í fyrra.“
Og byrjar svo að fylgja honum eftir.
„Já. Þá byrja ég að taka upp helstu viðburði í kringum flokkinn. Þannig að ég tók allt sem sneri að þessu.“
Þú ert nú nokkuð frægur fyrir að hafa verið annar af höfundum áralanga gjörningsins um Silvíu Nótt. Hvað er líkt með því og þessu uppátæki hans Jóns?
„Jájá, alveg helling. Sko, það var svo fyrir mig persónulega á svona kosmíski stigi sem klingdi sömu bjöllum og þegar við fórum af stað með Silvíu. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá var þetta ekkert ólíkt því að taka þátt í Eurovision hérna heima. Það er svona lið sem er með áskrift að Eurovision, semur alltaf lög í Eurovision…“
Sést jafnvel hvergi annars staðar…
„Já, og er alltaf með lögin í þremur efstu sætunum. Og svo kemur einhver fáránlegur karakter inn í þetta. Og ég fékk svolítið sömu tilfinningu. Þetta vex manni svolítið í augum, að ætla að stíga inn á þennan völl, af því að maður sér þetta fólk reglulega í spjallþáttum. Yfirleitt sér maður þetta fólk rétt fyrir kosningar, en þá er það alveg búið að dæla hárgeli á kollinn á sér (hann hlær) og láta hvítta á sér tennurnar og kemur ofsalega vel fyrir.
Það kom mér reyndar svolítið á óvart, eins og með Eurovision, hvað mótstaðan var lítil þegar á reyndi, og þetta er í raun sama fyrirbærið. Það er rosalega gaman að líkja þessu við Eurovision. Þetta er alveg sami verndaði amatörisminn og Eurovision er.“
Það virðast einmitt svipuð viðbrögð þeirra innvígðu við annars vegar Silvíu og hins vegar Jóni. Fólkið vissi ekkert hvernig ætti að bregðast við.
„Já, já. Það var eitt af því sem við gátum nýtt okkur og við höfðum reynslu í, þetta „keep them guessing“-element. Vera einn daginn að grínast, þann næsta alveg rosalega alvarleg, þriðja daginn algerlega úti á þekju. Þau vissu aldrei hvar þau höfðu okkur.“
Á þessum tímapunkti berst talið að Sjálfstæðisflokknum, en Gaukur virðist hrífast nokkuð að því hvernig hann framsetur sig.
„Ég hef alltaf haft virðingu fyrir Sjálfstæðisflokknum fyrir taktík. Það er yfirleitt sett ákveðin taktík af stað og svo er bara staðið við hana, og allir ganga í takt. Og það var það sem ég upplifði við Sjálfstæðisflokkinn.
Ég var hinum megin við borðið líka, ég var fjölmiðlafulltrúi Besta flokksins og var að vinna mikið fyrir hann, þannig að ég var í strategíunni líka. Þá sá maður að strategía Sjálfstæðisflokksins var, þegar maður lítur til baka, að vera ofboðslega vinaleg við okkur, taka okkur mjög vel, hlæja með okkur. Svo í einrúmi banka í okkur og segja að við værum alveg frábær, þetta væri æðislegt sem við værum að gera og alveg „chummy-chummy“ allan tímann. Það eru tvö taktísk element í því, sem eru annars vegar að passa upp á að vera ekki „fúli gaurinn“ sem aðrir tóku að sér, alveg launalaust. Það er merkilegt að sjá t.d. með Vinstri-græna, að í upphafi kosningabaráttunnar voru þeir með 20 prósent, og enduðu með 5 prósent. En með Sjálfstæðisflokkinn gekk það út á þetta annars vegar, að vera ekki „fúli gaurinn“, og svo, eftir kosningar, erum við orðnir svo miklir vinir að það liggur beinast við að við byrjum að vinna saman. Og þau urðu ofboðslega sár yfir að það hafi aldrei verið í spilunum, eftir að við vorum orðnir svona miklir vinir.“
Gaukur talar svo um muninn á „hefðbundnu“ stjórnmálamönnunum sem talsfólki hagsmuna og svo fulltrúum Besta flokksins sem fulltrúum borgarbúa sem vilja „komast að því hvað sé í gangi“. Og hann heldur áfram:
„Ég veit ekki um neinn meðlim Besta flokksins sem hefur einhvern áhuga að vera endurkjörinn. Þannig að það er fullt af hlutum sem þessi flokkur á eftir að geta gert sem verða ekkert endilega „PC“, pólitískt réttir.“
Áttirðu von á því að þetta myndi ganga svona vel?
„Nei, ég verð að segja að til að byrja með fékk mig af stað að taka þetta upp var sú veika von að jafnvel myndi Jón komast inn! (Hann hlær)
Sú fjarstæðukennda hugmynd!
„Já. Ég fékk þá flugu í höfuðið að hann myndi komast inn og það yrði frétt til næsta bæjar.“
Þessi niðurstaða kosninganna hlýtur að hafa bætt óvæntri dramatík í myndina…
„Já, heldur betur. Heldur betur.“
Hér berst talið að efnistökum myndarinnar. Gaukur hefur áfram orðið.
„Myndin er tvískipt. Söguþráðurinn er þessi Rocky-söguþráður, þessi „underdog“ sem tekst á við hið ómögulega og endar uppi sem sigurvegari. Hins vegar er söguþráðurinn bara Jón og hans… Þessi mynd… það er jafnvel erfitt að kalla hana heimildarmynd. Heimildarmyndir hafa breyst svo ofsalega mikið síðustu árin og hafa alltaf verið að breytast í áttina að America’s Next Top Model, sem eru hlaðnar af viðtölum og myndbrotum af fólki að „akta“ í kringum það sem það segir í viðtölunum. Eitthvað, ‚Hún var svo vond við mig’ og svo er sýnt eitthvað þar sem einhver er voðalega vondur við einhvern. Þetta er orðið endalaus röð af viðtölum og myndskreytingum. Það er ekki eitt einasta viðtal í þessari mynd.“
Þannig að þú ert bara að fylgja honum eftir.
„Já þetta er alveg hreinræktuð „fly on the wall“-heimildagerð, og ég er mjög ánægður með að okkur hafi tekist að gera svona sterka og heildstæða sögu úr því. Og svo er Jón svo ótrúlega skemmtilegur að það hefði verið hægt að gera tíu myndir úr þessu efni, af því að hann stoppar ekki. Hann getur ekki hætt að vera skemmtilegur. Hann bara talar og talar og talar og segir endalausar skemmtilegar sögur. Myndin er hins vegar ofboðslega mikið af því, af honum að blaðra við fólkið í kringum sig, segjandi einhverjar fyndnar og skemmtilegar sögur. Þannig að hún er mjög heiðarleg með það að gera, þú færð á tilfinninguna að þú ferð í þetta ferðalag með honum; þér líður svolítið eins og þú sért að gægjast þarna inn. Það að vera ekki með neitt viðtal er mjög sterkur effekt.
Og enginn þulur þá heldur?
„Enginn þulur eða slíkt.“
Þá berst talið að væntingum, en Gaukur verst það að skapa sér væntingar, eða í það minnsta flagga þeim opinberlega. Hann er fyrst og fremst yfir sig ánægður með útkomu myndarinnar, samstarfið og að nálgun hans á efnið skyldi hafa gengið upp. Hann vonar aðallega að myndin skýri hver tilgangur Jóns, hvort að þetta sé allt djók eða ekki. Og síðast en ekki síst vill hann að myndin…
„…verði innblástur inn í morknaða þjóðarsál, sem er aðframkomin af andlegu hungri.“
Ja, það er ekkert annað!
(Hann hlær) „Já, út af því að hún á að vera það. Það er að mörgu leyti punkturinn með henni. Maður finnur það að þjóðin er orðins svo níhílísk. Það skiptir ekkert máli lengur, það eru allir lygarar. Allir eru að PR-a sig. Ef eitthvað gerist ertu með 30 almanntengla á þínum snærum, sem breyta sögunni þannig að hún líti öðruvísi út. Það trúir enginn neinu lengur, það er allt soðið saman í einhvern sannleika og fólk er ringlað og reitt. Þetta er mynd sem sýnir á mjög heiðarlegan hátt hvað gerðist og er ótrúlega innblásin og falleg og fyndin.“
Og á þeim fallegu nótum enduðum við spjall okkar um mynd sem eitthvað segir mér að leyni verulega á sér, rétt eins og fólkið sem hún segir frá…
Gnarr kemur í bíóhús á Íslandi þann 12. nóvember.
Texti: Erlingur Grétar Einarsson