Nýir englar taka flugið

Endurræsing á gaman-spennuröðinni The Charlies Angels stendur nú fyrir dyrum, og nú herma nýjustu fregnir að Twilight leikkonan Kristen Stewart og 12 Years as a Slave Óskarsverðlaunaleikkonan Lupita Nyong’o séu líklegar til að taka að sér hlutverk tveggja af englunum.

Talið er að Kristen, sem er 27 ára og Lupita, sem er 34 ára, séu meðal þeirra sem sækist stíft eftir þessum hlutverkum, í mynd sem er endurræsing á kvikmyndum sem gerðar voru eftir vinsælum sjónvarpsþáttum frá áttunda áratug síðustu aldar. Moonligt leikkonan Janelle Monae, 31 árs, hefur einnig verið orðuð við hlutverk í myndinni.

Þættirnir fjölluðu um þrjá kvenkyns einkaspæjara sem unnu fyrir mann sem heitir Charlie. Farrah Fawcett, sem nú er látin, Kate Jackson, 69 ára, og Jaclyn Smith, 71 árs, léku engla Charlies í öllum fimm þáttaröðunum sem framleiddar voru frá árinu 1976 .

Fyrir Charlie, sem sást aldrei í mynd, talaði John Forsyth.

Leikstjóri nýju myndarinnar verður Pitch Perfect leikkonan og leikstjórinn Elizabeth Banks. Með aðalhlutverk í síðustu Charlies Angels kvikmyndaseríu fóru Drew Barrymore, 42 ára, Cameron Diaz, 44 ára, og Lucy Liu, 48 ára.

Charlie’s Angels var frumsýnd árið  2000 og tekjur af sýningu hennar námu 264 milljónum bandaríkjadala um allan heim. Tekjur næstu myndar, Charlie’s Angels: Full Throttle, frá árinu 2003,  námu 259 milljónum dala.