Bowie mynd endurgerð

Sony kvikmyndaverið ætlar að endurgera ævintýra og tónlistarmyndina Labyrinth, en hún var síðasta myndin sem Jim Henson leikstýrði.

Film and Television

Myndin, sem var frumsýnd árið 1986, var með Jennifer Connelly í aðalhlutverkinu, þá 15 ára gamalli, en hún þurfti að rata í gegnum völdunarhús til að bjarga ungabarninu bróður sínum, en honum hafði verið rænt af álfakonungi, sem tónlistarmaðurinn David Bowie, sem lést nú nýverið, lék. Bowie hljóðritaði fimm lög fyrir myndina.

Flestar persónur myndarinnar voru leikbrúður sem fyrirtæki Jim Henson bjó til. George Lucas var aðal framleiðandi og Terry Jones úr Monty Python skrifaði handritið.

Meðhöfundur Guardians of the Galaxy, Nicole Perlman, mun skrifa handrit endurgerðarinnar.

Myndin kostaði 25 milljónir Bandaríkjadala á sínum tíma og olli vonbrigðum í miðasölunni, og þénaði einungis 13 milljónir dala. Myndin var hinsvegar vinsæl á vídeó. Labyrinth var vonbrigði einnig fyrir Henson persónulega, þar sem fyrstu þrjár Prúðuleikaramyndirnar og myndin The Dark Crystal höfðu allar verið mjög vinsælar á undan Labyrinth.