Emma Stone tekjuhæst

Óskarsverðlaunaleikkonan Emma Stone er tekjuhæsta leikkonan í Hollywood á árinu sem er að líða samkvæmt tímaritinu Forbes. Stone þénaði í kringum 26 milljónir Bandaríkjadali fyrir skatt á síðustu 12 mánuðum, sem samsvarar rúmlega 2.690 milljónum íslenskra króna.

Leikkonan fór með aðalhlutverkið í kvikmyndinni La La Land sem halaði inn tæplega hálfum milljarði dala á heimsvísu. Myndin kostaði rétt rúmar 30 milljónir dala en Stone skrifaði undir samning þar sem hún fær ákveðna prósentu af hagnaði myndarinnar. Megnið af tekjum hennar kom því frá þessum ótrúlega hagnaði sem myndin skilaði.

Í öðru sæti sit­ur Jennifer Aniston, sem halaði inn 25.5 millj­ón­um doll­ara, en hún þénaði sínar tekjur í gegnum auglýsingasamninga við fyrirtæki á borð við flugfélagið Emirates, Smartwater og Aveenoi. Aniston lék einnig í tveimur kvikmyndum sem komu út á árinu.

Jennifer Lawrence, sem sat á toppi listans í fyrra, er nú í þriðja sæti með 24 milljónir dollara í tekjur. Laun hennar komu aðalega frá framleiðslufyrirtæki kvikmyndarinnar mother! og frá franska fyrirtækinu Dior.

Mark Wahlberg er tekjuhæsti leikarinn á árinu en hann þénaði 68 milljónir dali á ári. Leikarinn lék í gamanmyndinni Daddy´s Home 2 og spennumyndinni Transformers: The Last Night á árinu. Einnig á fjölskylda hans hamborgarastaði sem eru mjög vinsælir í Bandaríkjunum og kallast Wahlbergers. Dwayne „The Rock“ Johnson og Vin Diesel eru síðan í öðru og þriðja sæti listans.

Athygli vekur að 14 karlleikarar eru með hærri tekjur en Emma Stone á árinu. Meðleikari hennar úr La La Land, Ryan Gosling, situr þar á meðal í sætinu fyrir ofan hana með 29 milljónir dollara í tekjur.