Rúnar Rúnarsson með masterklassa í Bíó Paradís í kvöld

Hinn margverðlaunaði leikstjóri Rúnar Rúnarsson ræðir um stuttmyndir
sínar og ferilinn í Bíó Paradís. Þrjár verðlaunastuttmyndir hans verða
sýndar ásamt broti úr Eldfjalli, fyrstu bíómynd Rúnars. Masterklassinn
fer fram á fimmtudagskvöld kl. 20:00. Árni Ólafur Ásgeirsson ræðir við
Rúnar og stýrir umræðum.

Eldfjall er fyrsta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar leikstjóra í fullri
lengd og framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2012. Hún var frumsýnd
í Háskólabíói sl. föstudag við dynjandi lófatak. Myndin hefur spurst
gríðarvel út, og jákvæðir dómar hafa birst í öllum helstu prent- og
ljósvakamiðlum landsins undanfarna daga. Auk þess hlaut myndin tvenn
verðlaun á nýafstaðinni kvikmyndahátíð í Reykjavík. Eldfjall hefur
undanfarna mánuði verið sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim, t.d. í
Cannes, Toronto, Karlovy Vary, Chicago, Transilvaníu, Kazakhstan, og
London. Myndin er í forvali til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Eldfjall fjallar um Hannes, 67 ára gamlan mann sem er að komast á
eftirlaunaaldur. Hann er karlmaður af gamla skólanum, einangraður frá
fjölskyldunni og heimilinu og þarf nú að takast á við nýtt hlutverk í
lífinu. Eldfjall er þroskasaga manns sem þarf að horfast í augu við
val fortíðarinnar og erfiðleika nútímans til að eiga möguleika á
framtíð.

Stuttmyndir Rúnars, Síðasti bærinn, Smáfuglar, og Anna hafa fengið
yfir 100 alþjóðleg kvikmyndaverðlaun. Síðasti bærinn var tilnefnd til
Óskarsverðlauna árið 2006, ein íslenskra stuttmynda.