Hálfguð og kjúklingur úti á hafi – Fyrsta stikla

Í júní sl. fengum við smá sýnishorn af Dwayne Johnson í hlutverki hálfguðsins Maui í nýju Disney-teiknimyndinni Moana, en nú er komið að fyrstu stiklu í fullri lengd.

maui

Í stiklunni er sól og sumar og mikið fjör, en myndin fjallar um titilpersónuna Moana, sem Auli’i Cravalho leikur, sem hittir Maui sem fer með henni í sjóferð yfir opið úthafið í leit að goðsagnakenndri eyju. Á leiðinni lenda þau í ýmsum ævintýrum og ótrúlegum raunum, hitta risastór skrímsli, og glíma við óblítt úthafið, en um leið finna þau hvað ást og vinátta þýðir.

Með þeim á leiðinni er kjúklingurinn Hei Hei, sem Alan Tudyk leikur, sem verður greinilega áberandi í myndinni.

Moana er 56. teiknimyndin sem Walt Disney Animation framleiðir.

Leikstjórar eru Ron Clements og John Musker og tónlistina gerir Lin-Manuel Miranda.

Myndin kemur í bíó hér á Íslandi 2. desember nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: