Veglegir Blu-ray pakkar sem seljast hratt

Viðhafnarútgáfur á Blu-ray af nokkrum „költ“ titlum hjá breska útgáfufyrirtækinu Arrow Video hafa slegið í gegn og seljast á leifturhraða.

„The House Collection“ kom út 27. mars síðastliðinn og innihélt breski pakkinn allar fjórar myndirnar á Blu-ray ásamt þykkri bók og hefur hann þegar selst upp og er einungis fáanlegur í dag á uppsprengdu verði hjá einkaaðilum. Óneitanlega flottur pakki sem framleiddur var í 4.000 eintökum.

„Phantasm“ pakkinn inniheldur allar fimm myndirnar ásamt 152 bls. bæklingi, auka disk troðfullum af aukaefni og eftirlíkingu af banvænu kúlunni sem spilar stóra rullu í öllum myndunum. Þessar myndir hafa í áraraðir verið í miklu uppáhaldi hjá hryllingsmyndaunnendum og þær eru að mörgu leyti frekar óvenjulegar. Árið 2016 stóð leikstjórinn J.J. Abrams („Star Wars: The Force Awakens“) fyrir stafrænni yfirhalningu fyrstu myndarinnar og lítur hún stórkostlega út í háskerpu. Rúmlega helmingur upplagsins hefur þegar selst en óvenju mikið var framleitt af pakkanum (10.000 eintök) en án efa mun þessi klárast líka. Það var líka mjög veglegur pakki frá fyrirtækinu WellGoUSA í Bandaríkjunum gefinn út í apríl en hann er nú þegar uppseldur.

Væntanleg er „Phenomena“ (1985) eftir Dario Argento í viðhafnarútgáfu en myndin kemur út 8. maí og er upplagið við það að klárast í gegnum forpantanir. Pakkinn er mjög áhugaverður og inniheldur þrjár útgáfur af myndinni og allar með betrumbætt mynd- og hljóðgæði, heilan haug af aukaefni, 60 bls. bækling og endurhljóðblandaðan geisladisk með tónlistinni úr myndinni. „Phenomena“ þykir ein af áhugaverðari Argento myndunum en aðdáendur leikstjórans ýmist elska að hata þessa eða hreinlega dýrka hvern ramma. Myndin skartar m.a. gæðaleikurunum Jennifer Connelly og Donald Pleasence í aðalhlutverkum. Safnarar og áhugamenn eiga hátíð í vændum með þessum pakka.

Með auknu niðurhali og minnkandi sölu á beinhörðum eintökum hefur það orðin lenskan hjá útgáfufyrirtækjum að gefa út verulega takmörkuð upplög af veglegum pökkum. Oft er umhugsunartíminn lítill sem enginn en gott þó að fyrirtækin tapa ekki stórfé á þessu og geta haldið rekstri áfram.