Dumbo flýgur á eyrunum í fyrstu stiklu

Í ljósi þess að leiknar nýlegar Disney kvikmyndir eins og The Jungle Book og Beauty and the Beast hafa skilað drjúgum skildingi í kassann, og heppnast vonum framar, þá heldur fyrirtækið nú áfram á sömu braut.

Nú er það hinn oft á tíðum töfrandi leikstjóri Tim Burton sem er í leikstjórastólnum, í leikinni mynd um fílinn Dumbo, sem getur flogið á eyrunum, en upphaflega var gerð Disney teiknimynd um fílinn góða árið 1941.

Og nú er fyrsta stiklan fyrir myndina komin út, en þar má segja að lífið í fjölleikahúsinu sé í aðalhlutverki.  Dumbo sjálfur lítur vel út í stiklunni, með sín risastóru og flaksandi eyru.

Auk hins tölvugerða fíls þá eru lifandi leikarar þau Colin Farrell, sem einhenti stríðs-dýralæknirinn Holt Farrier, Eva Green, Colette Marchant og Danny DeVito í hlutverki sirkusstjórans Max Medici og Michael Keaton sem þorparinn V. A. Vandemere.

Kvikmyndin er væntanleg í bíó 29. mars á næsta ári.

Kíktu á fyrstu stikluna hér fyrir neðan: