Djúpið færist um fimm mánuði

Það gerist oft þegar íslenskum bíómyndum er frestað. Til dæmis átti Svartur á leik að vera upphaflega frumsýnd núna síðastliðinn janúar áður en hún var færð um tvo mánuði. Síðan hefur ekkert enn heyrst af myndinni Þetta reddast (hentugur titill miðað við framleiðsluvesenið á henni), en hún fór víst í tökur fyrir tæplega þremur árum síðan.

Svo er auðvitað nýjasta myndin hans Baltasars Kormáks, sem hann tók upp á undan Contraband, og það er að sjálfsögðu Djúpið. Hún er byggð á sannsögulegum atburðum og þrekvirki Guðlaugs Friðþórssonar þegar honum tókst að synda í land eftir að báturinn Hellisey, sem hann var skipverji á, sökk um miðja nótt þann 11. mars 1984, um 5 km frá Vestmannaeyjum. Ólafur Darri fer með lykilhlutverkið

Djúpið hefur setið á hillunni í smátíma núna og stóð fyrst til boða að frumsýna hana í desember á seinasta ári, áður en hún var færð þangað til í mars. Eftir óvæntu sprengjuaðsóknina á Contraband hefur verið nóg að gera hjá Balta að undanförnu í tengslum við önnur verkefni og þess vegna hefur Djúpið enn og aftur verið færð, núna um tæplega hálft ár. Þegar Contraband var frumsýnd var leikstjórinn enn að fikta við lokaútgáfuna og þess vegna er ekki vitað um hvort myndin sé 100% tilbúin eða ekki.

Eins og staðan er í dag fáum við ekki að sjá myndina fyrr en í lok ágúst á þessu ári. Enn hefur ekkert sést nein stikla eða svo mikið sem plakat eða opinberar stillur.

Ekkert er hins vegar vitað um myndina Þetta reddast eða hvort hún líti nokkurn tímann dagsins ljós. Það er sagt að hún komi út á þessu ári en framleiðendur hafa verið að færa hana stöðugt í tvö ár. Best að bíða bara og sjá.