Gerir Baltasar 2 Guns næst?

Skv. erlendum kvikmyndasíðum hefur Baltasar Kormáki verið boðið leikstjórahlutverk á kvikmyndaaðlöguninni af teiknimyndasögunni 2 Guns. Hann mun því sameinast Mark Wahlberg á ný, en eins og alþjóð veit fer Wahlberg með aðalhlutverkið í Contraband, endurgerðinni af Reykjavík – Rotterdam, sem Baltasar leikstýrir.

Universal hafa verið að reyna að koma 2 Guns í gang í dálítinn tíma, og m.a. hafði David O. Russel, (sem vann með Wahlberg við The Fighter, Three Kings, og I heart Huckabees) ætlað sér að leikstýra myndinni, og er búist við að hans gerð að handritinu verði notuð. Wahlberg hefur verið tengdur við annað aðalhlutverkið í dálítinn tíma. Myndin fjallar um tvo „undercover“ lögreglumenn frá sitthvorri stofnuninni sem enda á því að rannsaka hvorn annan fyrir tengsli við mafíuna ofl. Býður upp á gott tvist í glæpamynd. Þetta hlýtur að þýða að Universal hafi trú á Contraband, og að Wahlberg hafi notið samstarfsins við Baltasar. Contraband var nýlega færð fram og á að koma út í janúar.

Hvað þýðir þetta fyrir aðrar væntanlegar myndir Baltasars? Variety greinir frá því að hann hafi líka verið í viðræðum um að taka að sér Everest myndina sem við greindum frá fyrir stuttu, og að Víkingr sé ennþá á borðinu. Djúpið hefur þegar verið tekin upp, og verður væntanlega kláruð er vinnu á Contraband lýkur. En verður það ekki æ ólíklegra að við fáum nokkurntíman að sjá Grafarþögn, framhaldið af Mýrinni? Sú mynd er nánast hin íslenska Sin City 2…

En við óskum Baltasar góðs gengis með hver þau verkefni sem hann tekur fyrir næst.