Efron í endurgerð Three Men and a Baby

Zac Efron mun leika aðalhlutverkið í endurgerð á hinni vinsælu „Three Men and a Baby“ fyrir Disney+. Þetta herma heimildir kvikmyndavefjarins TheWrap.

Efron klár í slaginn.

Tom Selleck, Steve Guttenberg og Ted Danson léku aðalhlutverkin í upprunalegu myndinni frá árinu 1987, en myndin fjallar um þrjá piparsveina sem fá allt í einu upp í hendurnar ungabarn, sem einn þremenninganna eignaðist í lausaleik, sem þeir þurfa að annast.

Myndin var byggð á frönsku myndinni Trois hommes et un Couffin ( Þrír menn og vagga) frá árinu 1985.

Lenoard Nimoy leikstýrði Three Men and a Baby, en hún varð fyrsta leikna kvikmynd úr ranni Disney til að fara yfir 100 milljónir Bandaríkjadala í tekjur í Bandaríkjunum.

Stiklan úr fyrstu myndinni.

Framhaldsmyndin Three Men and a Little Lady var frumsýnd árið 1990.

Gordon Gray, sem framleiddi Ben Affleck dramað The Way Back, mun framleiða endurgerðina. Enginn leikstjóri er kominn um borð. Will Reichel skrifaði handrit endurgerðarinnar.

Kvikmyndin verður endurkoma fyrir Efron til Disney, en þar sló hann upprunalega í gegn í High School Musical árið 2006. Síðustu kvikmyndir leikarans eru The Greatest Showman, Extremely Wicked, Shockingly Evil and Vile, The Beach Bum, Scoob! og Netflix þáttaröðin Down to Earth with Zac Efron.

Næst á dagskrá hjá Efron er sjónvarpsþáttaröðin Killing Zac Efron og kvikmyndin King of the Jungle.