Styles verður ekki prins

Harry Styles, aðalsöngvari strákahljómsveitarinnar vinsælu One Direction, mun ekki taka að sér hlutverk í leikinni útgáfu Disney af teiknimyndinni Litlu hafmeyjunni.

Styles í Dunkirk.

Dunkirk leikarinn, sem hafði átt í samningaviðræðum um að leika Eric prins, hefur nú slitið þeim viðræðum. Það er Rob Marshall sem leikstýrir kvikmyndinni. Frá þessu er sagt í The Hollywood Reporter.

Grown-ish leikkonan Halle Bailey mun leika Litlu hafmeyjuna, eða Ariel, en gamanleikkonan vinsæla Melissa McCarthy mun leika Úrsúlu. The Room leikarinn Jacob Tremblay mun leika Flounder og Awkwafina, úr Crazy Rich Asians, leikur Scuttle.

Marc Platt, sem starfaði við hlið Marshall í annarri ævintýramynd, Mary Poppins Returns og var einn framleiðenda í nýju Aladdin mynd Guy Richie, er framleiðandi myndarinnar. Marshall og John DeLuca eru einnig framleiðendur Litlu hafmeyjunnar, ásamt Hamilton stjörnunni Lin-Manuel Miranda.

Styles þreytti frumraun sína sem kvikmyndaleikari í Christopher Nolan myndinni Dunkirk, og kom til greina nýverið í hlutverk Elvis Presley í nýrri söngvamynd Baz Luhrman ( Austin Butler fékk hlutverkið síðar ).

Litla hafmeyjan fjallar um hafmeyjuna Ariel sem verður ástfangin af manni á þurru landi, að nafni Eric. Í myndinni munu heyrast sígild lög eins og Under the Sea, Part of Your World og Kiss the Girl.