Topp 10 löggur í kvikmyndum

Löggumyndir eru sívinsælar og þeir eru ótalmargir leikararnir sem hafa skapað ódauðlega löggukaraktera í bíómyndum. Hér að neðan er topp tíu listi sem breska blaðið The Guardian tók saman.
Eruð þið sammála þessum lista? Setjið endilega ykkar uppáhalds löggu í spjallið fyrir neðan fréttina.

 

Martin Riggs

Lethal Weapon (1987)

Margir tala um hvað löggumyndin End of Watch er raunveruleg lýsing á lífi lögreglumanna í Los Angeles. Það sem gerir myndina jafn raunverulega og raun ber vitni, er góður samleikur þeirra Jake Gyllenhaal og Michael Peña sem aðal lögguparið.

Þeir hafa líklega lært sitthvað af samleik þeirra Mel Gibson og Danny Glover í Lethal Weapon, en Glover lék Roger Murtaugh, félaga Gibson.  Þeir eru fyndnir, hræðast ekkert og eru hugljúfir á sama tíma, sem gerir þá að besta löggupari sem fram hefur komið.

Chan Wing-yan
Infernal Affairs (2002)

Þetta er mynd frá Hong Kong sem er fyrirmynd myndarinnar The Departed eftir Martin Scorsese frá 2006. Myndin fjallar um tvær löggur sem eru svikarar, og Yan leikur aðra þeirra meistaralega vel.

Axel Foley
Beverly Hills Cop (1984)

Hinn orðheppni og hraðmálga Axel Foley frá Detroit, er hin fullkomna lögga í gamanmynd. Hér er Eddie Murphy upp á sitt besta, fyndinn, dónalegur og skarpur. Ekki skemmir fyrir frábær tónlist Harold Faltermeyer sem fylgir Foley hvert fótmál.

 

Marge Gunderson
Fargo (1996)
Marge Gunderson í túlkun Frances McDormand er ólík öðrum löggum. Hún á ekki við drykkjuvandamál að stríða, hún er ekki einhver kaldhæðinn töffari sem er á skjön við allt og alla í kringum sig, hún er meira segja ekki einum degi frá því að fara á eftirlaun, eins og er nokkuð algengt þema í löggumyndum.  Í staðinn, er þessi besta persóna Coen bræðra, kurteis ófrísk lögregla, sem aldrei missir stjórn á skapi sínu. Meira að segja í lokaatriðinu þegar hún er að handtaka mann fyrir að hafa drepið sex manns, þá segir hún í kennslukonutón: „There’s more to life than a little money, you know?“ Hún er ekki reið, bara vonsvikin.

Robocop
Robocop (1987)

Robocop eftir Paul Verhoeven er innblásin af myndum eins og Judge Dredd og Blade Runner.  Þessi lögga, einskonar súper vélmenni, er allt sem allar hinar löggurnar eru ekki. Hann er að hluta maður og að hluta vélmenni, eftir að leifunum af lögreglumanninum Alex Murphy er púslað saman við vélmenni, eftir að hafa verið myrtur á hryllilegan hátt. Verhoven leikur sér hér með Jesú ímyndina, og Murphy er einskonar löggu – Jesú – upprisinn frelsari, þó heldur sé hann ofbeldisfyllri en Jesús.

John McClane
Die Hard (1988)

Það má segja að John McClane hafi orðið til upp úr arfleifð Dirty Harry, löggunnar sem Clint Eastwood lék svo eftirminnilega. Þetta er lögga sem er alltaf hálf krambúleruð, og í tómu tjóni. Hann er alltaf rangur maður á röngum tíma, hann er orðljótur, hjónabandið hangir á bláþræði, hann ber enga virðingu fyrir yfirvöldum og er á mörkum þess að teljast alkóhólisti. Það er samt engin lögga sem kemst í hálfkvisti við húmorinn og skerpuna í þessum frábæra löggukarakter.Yippee-ki-yay

Virgil Tibbs
In the Heat of the Night (1967)
Virgil Tibbs er menningarlega lang mikilvægasta löggan á þessum lista. In the Heat of the Night var frumsýnd þremur árum eftir að mannréttindalögin voru samþykkt í Bandaríkjunum ( Civil Rights Act ) Sidney Poitier, fyrsti þeldökki leikarinn til að fá Óskarsverðlaun, leikur lögguna. Hann er eldklár lögga að rannsaka morð í rasískum bæ í Mississippi.

 

Clarice Starling
The Silence of the Lambs (1991)

Hannibal Lecter stal dálítið senunni í þessari mynd, en þó ekki alfarið því Clarice Starling, í túlkun Jodie Foster, er mjög eftirminnileg, og áhorfandinn upplifði hryllinginn í gegnum hana.

Hún lék alríkislögreglumann í þjálfun ( þannig að tæknilega séð er hún ekki lögga) sem fær það verkefni að reyna að skilja betur innræti fjöldamorðingja sem gengur laus, með því að greina  og ræða við Lecter, fjöldamorðingja og mannætu, sem sjálfur er greinandi.  Foster var fullkomið val í hlutverkið.

 

James Gordon
The Dark Knight trilogy (2005-2012)

Áður en Christopher Nolan kom til sögunnar og fór að gera Batman myndir, þá var lögregluforinginn Gordon lítið meira en góður félagi Batman. Í The Dark Knigh þríleiknum þá býr Nolan úr honum löggu sem á í innri baráttu, og það brýst um í honum það sem er rétt að gera, og það sem er nauðsynlegt að gera. Gordon stendur vaktina í Gotham City, án þess að fela sig á bakvið neina grímu.

Vincent Hanna
Heat (1995)

Al Pacino leikur lögreglumanninn Vincent Hanna, sem vinnur í morðdeild lögreglunnar í Los Angeles. Hollusta hans við starfið er svo mikil að einkalífið er í rúst. Leikur Al Pacino er hrein skemmtun. Þetta er í fyrsta skipti sem Pacino og Robert De Niro leika saman í mynd, en margvíslegir árekstrar þeirra í myndinni ná hámarki í minnisstæðri senu í matstofunni þegar Hanna segir: „Brother, you are going down.“