Skósveinarnir vilja Söndru Bullock sem leiðtoga

Litlu krúttlega skósveinarnir úr Despicable Me, eða Aulinn ég eins og myndin heitir á íslensku, hafa notið mikilla vinsælda síðan þeir birtust fyrst á hvíta tjaldinu. Nú hafa Universal kvikmyndaverið og Illumination Entertainment ákveðið að gera sérstaka mynd þar sem litlu gulu kallarnir verða í aðalhlutverki. Sú mynd kemur til viðbótar framhaldinu af Despicable Me sem væntanlegt er í bíó 28.júní nk.

Sú sem verður í aðalhlutverki í þessari skósveinamynd verður leikkonan Sandra Bullock, sem mun tala fyrir aðalpersónuna.

Samkvæmt heimildum Empire kvikmyndaritsins mun í myndinni verða kafað dýpra í forsögu þessara litlu kalla.   Meðal þess sem kemur í ljós er að þeir hafa verið til nánast frá upphafi tímans, og þjónað af mikillli tryggð mestu og metnaðarfyllstu illmennum veraldarsögunnar, en á einhvern hátt hefur þeim alltaf tekist að ónýta ill áform þeirra og að lokum koma þeim fyrir kattarnef.

Sagan í myndinni hefst árið 1960 ( löngu áður en þeir hitta Gru úr Despicable Me ) en þar eru þessir litlu gulu kallar í einhverjum mínus eftir að hafa þurrkað út alla fyrri leiðtoga sína og meistara. Þannig að nú fara þeir á ráðstefnu þorpara til að finna einhvern sem getur verið leiðtogi þeirra.  Óþokki sem lítur út eins og leikkonan Audrey Hepburn, sem heitir Scarlett Overkill ( sem Bullock talar fyrir ), virðist vera besti kosturinn í stöðunni fyrir skósveinana, þar sem sem hún stefnir að því að verða heimsins fyrsta kven-ofurillmenni.

Handrit myndarinnar er eftir Brian Lynch og Kyle Balda og Pierre Coffin mun verða tökumaður. Myndin, sem enn hefur vinnuheitið Minions ( Skósveinarnir ), mun verða frumsýnd 19. desember 2014.

Við fáum næst að sjá Söndru Bullock í myndinni The Heat, sem er eftir leikstjóra gamansmellsins The Bridesmaids, þar sem hún leikur á móti gamanleikkonunni Melissa McCarthy sem einmitt sló í gegn í The Bridesmaids og svo aftur um síðustu helgi í Bandaríkjunum í Identity Thief. 

The Heat er gamanmynd, og verður frumsýnd 31. júlí nk. Þarnæst mun Bullock koma á hvíta tjaldið í vísindaskáldsögunni Gravity, 4. október nk.