Týnda Justice League myndin: Er lengri útgáfa leikstjórans loksins á leiðinni?

Óhætt er að segja að ofurhetjumyndin Justice League hafi ekki lent með miklum látum þegar myndin leit dagsins ljós um veturinn árið 2017. Aðsókn myndarinnar stóð langt undir væntingum framleiðenda, áhorfendur og gagnrýnendur ypptu flestir öxlum og þótti flestum myndin vera þunn, bersýnilega sundurlaus og sérstaklega illa unnin í sumum tölvubrellum.

Ýmist grín hefur verið gert á kostnað framleiðenda, ekki síst fyrir að neyðast til að fá skeggjaðan Superman í tökur og raka hann með aðstoð tölvubrellna eftirá. Ástæðan, eins og margir hverjir eflaust vita, var sú að leikarinn Henry Cavill var í miðjum tökum á Mission: Impossible – Fallout og mátti ekki samkvæmt samningi raka sig fyrir aukatökurnar á Justice League. Niðurstaðan á stafræna rakstrinum hefur getið af sér ófáa brandara og eftirminnilega ramma á internetinu.

Frá upphafi útgáfuársins var orðið ljóst að ekki væri allt með felldu með þessa þriðju DC stórmynd frá Zack Snyder, að framleiðslan væri hreint í heljarinnar rugli. Justice League átti að halda sama þræði og var kynntur í Man of Steel og Batman v Superman: Dawn of Justice, en á meðan klippiferli Justice League varð leikstjórinn að stíga frá verkefninu, en um þetta leyti skall harmleikur á þegar dóttir hans svipti sig lífi. Segja sumar heimildir að kvikmyndaverið Warner Bros. hafi einfaldlega rekið Snyder á meðan sorgarferlinu stóð og hafi komið bein tilskipun framleiðenda að Justice League þyrfti að vera léttari, meira í líkingu við Marvel-myndirnar og alls ekki lengri en 120 mínútur.

Þá var Joss Whedon (Buffy, Avengers, Avengers: Age of Ultron) ráðinn til að eiga við handritið, leikstýra auka- og endurtökum (þá með skeggjuðum Cavill) og hafa yfirsýn yfir lokasamsetningu. Útkoman er sú sem áhorfendur sáu og þekkja í dag, en strax í kjölfar frumsýningarinnar fóru margir hverjir að krefjast þess að Warner Bros. gefi út upprunalegu útgáfuna af myndinni.

Svonefnda „Snyder-klippið“ er talið vera um 214 mínútur að lengd (e. þrír og hálfur tími), allt öðruvísi í tón og miklu meiri epík að sögn leikstjórans. Auk þess er Superman ekki aðeins lukkulega laus við gúmmívarirnar heldur í svörtum búningi ofan á það, ófáum aðdáendum myndasagnanna til mikillar ánægju.

Stuðningur eykst með myllumerki

Á þessum þremur árum hefur kallið eftir Snyder-klippinu aukist gífurlega. Hófst þetta allt með myllumerkinu #ReleaseTheSnyderCut og hefur eftirspurn og eftirvænting náð ótrúlegri útbreiðslu, þá í fréttamiðlum, samskiptamiðlum, á auglýsingaskiltum o.s.frv. Einnig er vert að nefna að þessi herferð aðdáenda hefur á þessum árum safnað rúmlega 150.000 Bandaríkjadollara fyrir góðgerðarstörf AFSP (American Foundation of Suicide Prevention). Þetta var m.a. gert í minningu Autumn, dóttur Snyders.

Flestir leikarar myndarinnar (og fjöldinn allur af öðrum frægum í kvikmyndabransanum) hafa meira að segja tekið þátt í þeirri hreyfingu að skora á framleiðendur til að gefa út Justice League í sinni upprunalegu mynd, áður en Whedon og framleiðendur .

Á meðal þráða sem klipptir voru úr heildarverkinu voru ítarlegri baksögur Cyborg (Ray Fisher), The Flash (Ezra Miller) og fleiri Íslandsvina. Jafnframt voru þekktu DC persónurnar Green Lantern, Martian Manhunter og Darkseid fjarlægðar úr sögunni. Willem Dafoe, Jesse Eisenberg og fleiri aukaleikarar lentu einnig á klippigólfinu og samdi Junkie XL tónlistina í upprunalegu útgáfunni, áður en Danny Elfman tók síðar við.

Reglulegar kitlur á samfélagsmiðlum

Hafa þó margir innan og utan bransans efast stórlega um tilvist þessarar Snyder-útgáfu, telja þá að um hrátt grófklipp sé að ræða og þurfi töluvert fjármagn til klára verkið. Snyder hefur sjálfur verið virkur á samfélagsmiðlum síðustu misseri og staðfest margsinnis að útgáfan sé til og næstum því fullkláruð.

Leikstjórinn hefur verið duglegur að svara spurningum aðdáenda og deilir hann reglulega stillur úr týndu Justice League kvikmyndinni.

Einn dyggasti stuðningsmaður hreyfingarinnar Jason Momoa fullyrti með bros á vör að Snyder-klippið væri meiriháttar. Momoa var staddur í viðtali við MTV að kynna sjónvarpsþættina See fyrir Apple+ þegar hann var spurður út í Justice League og #SnyderCut hreyfinguna. Momoa gaf í skyn að samningsmál hafi hindrað það að hann megi ræða þetta, en hann stóðst ekki mátið í umræddu viðtali og sagðist ekki geta beðið eftir að almenningur fengi að sjá myndina, enda allt önnur kvikmynd heldur en þessi sem var gefin út.

Hjólin snúast

Fyrirstaða útgáfunnar hefur fram að þessu byggst á neitun framleiðenda til að fjármagna útgáfu af kvikmynd sem stóðst ekki væntingar í aðsókn, enda umtalið slappt. Snyder hefur áður fengið að gefa út lengri klipp af sínum myndum (m.a. Watchmen og Batman v Superman) við stórgóðar undirtektir aðdáenda þeirra. Vilja þó einhverjir meina að þó kvikmyndin sé fullklippt er ekki ólíklegt að þurfi að klára eða fínpússa einhverjar tæknibrellur.

Myndasöguhöfundurinn Grace Randolph, sem er vel tengd DC kvikmyndabransanum, tók þátt í Ask Me Anything myndbandi á YouTube rásinni og var spurð út í þessa margumtöluðu útgáfu, sem hún segist reglulega heyra góða hluti um. Hún telur afar líklegt að kvikmyndaverið endi á því að gefa myndina út og sé Snyder í ýmis konar fjárhagsviðræðum við Warner Bros. Voru umræður á tímapunkti um að streymisveitan HBO Max myndi gefa myndina út, en það hefur ekki enn verið staðfest.

Hér að má sjá samanburð á stílbreytingu og litatónum Justice League myndarinnar eins og hún var upphaflega auglýst. Fer heldur ekki á milli mála að fjölmargar senur úr stiklum eru alveg fjarverandi í bíóútgáfu myndarinnar.

Í myndbandi frá YouTube rásinni Heavy Spoilers er ítarlega farið yfir sögu Justice League og framvindu myndarinnar í Snyder-klippinu.

Úttektin málar svo sannarlega gerólíka mynd af því sem rataði í kvikmyndahúsin. Áhugasamir eru eindregið hvattir til að skoða það.