Suicide Squad 2 komin í gang!

Heimildir úr herbúðum Warner Bros kvikmyndafyrirtækisins, sem MovieWeb vefsíðan vísar til, segja að Suicide Squad 2 sé nú þegar í undirbúningi, þó enn sé langt í frumsýningu fyrstu myndarinnar. Sömu heimildir herma að tökur myndar númer tvö muni hefjast á næsta ári, 2017.

suicide squad

Svo virðist sem kvikmyndaverið sé svo ánægt með útlitið á Suicide Squad, sem kemur í bíó í ágúst nk., að þeir vilji ekki bíða boðanna, heldur byrja strax á framhaldinu.

Kvikmyndaverið á nú í viðræðum við leikstjóra myndar númer eitt, David Ayer, um að taka að sér leikstjórn spennutryllis í ætt við mynd hans End of Watch, sem kallast Bright, en í henni myndu þeir leiða saman hesta sína á ný, Ayer og Deadshot úr Suicide Squad, öðru nafni Will Smith.

Sú mynd gerist í ævintýraveröld þar sem orkar og álfar búa í sama heimi og menn. Talið er að kvikmyndaverið vilji pressa á Ayer og Smith, um að ljúka tökum á Bright fyrir lok þessa árs, svo þeir geti hellt sér í Suicide Squad 2 strax eftir áramótin.

Suicide Squad fjallar um leynilega ríkisstofnun sem rekin er af Amada Waller sem kallast A.R.G.U.S. , sem býr til sérsveit sem er skipuð erki-illmennum, sem kallast „Suicide Squad“. Þeim er falið að leysa hættulegustu verkefnin hverju sinni í skiptum fyrir styttri fangelsisdóma.

Þó Warner Bros og DC comics hafi ekki staðfest þessar fregnir þá er talið að Suicide Squad komi í bíó sumarið 2018. DC er með tvær aðrar myndir það ár, The Flash, sem kemur í mars, og Aquaman, sem kemur í júlí það ár.

Helstu leikarar í Suicide Squad eru Will Smith (Deadshot), Margot Robbie (Harley Quinn), Jared Leto (The Joker), Jai Courtney (Boomerang), Joel Kinnaman (Rick Flagg), Cara Delevingne (Enchantress), Viola Davis (Amanda Waller), Karen Fukuhara (Katana) Adewale Akinnuoye-Agbaje (Killer Croc) og Jay Hernandez (El Diablo).