Whedon hættir við Batgirl

Avengers leikstjórinn Joss Whedon er hættur við að leikstýra ofurhetjukvikmyndinni Batgirl, en Whedon tók við leikstjórnartaumunum í mars 2017.  Von hans var upphaflega að ná að fylgja í fótspor hinnar velheppnuðu Wonder Woman, og gera flotta ofurhetjukvikmynd með konu í aðalhlutverki. Nú hefur The Hollywood Reporter tilkynnt að Whedon sé horfinn frá verkefninu.

Í tilkynningu segir Whedon: „Batgirl er svo spennandi verkefni, og samstarfsfyrirtækin Warner Brothers og DC Comics hafa verið mjög öflugir samstarfsaðilar, en nú hef ég loks áttað mig á því að ég næ ekki að setja saman nógu áhugaverða sögu.“

Þá talaði hann til forstjóra DC, Geoff Johns, og forstjóra Warner Bros. Picture, Toby Emmerich, og sagði: „Ég er þakklátur Geoff og Toby og allra sem hafa tekið mér svo vel, og einnig fyrir skilninginn þegar ég … eh, er til eitthvað betra orð en „klikkaði“?“

Heimildir vefsíðunnar herma að ástæða þess að Whedon er horfinn á braut sé að honum hafi ekki tekist að skrifa handrit sem passaði nógu vel inn í ofurhetjuheim DC Comics, eða svokallaðan DC Comics Extended Universe – „útvíkkaðan ofurhetjuheim DC Comics.“

Áður hefur komið fram að Batgirl eigi að gerast í hinum nýja „52 heimi“ þar sem Batgirl nær vopnum sínum á ný eftir hina hrikalegu Killing Joke atburði. Þar er átt við það þegar Jókerinn lamar Barbara Gordon, öðru nafni Batgirl, og sýnir föður hennar, Commisioner Gordon, nektarmyndir af henni limlestri.

Sagt er að vandi Whedon hafi verið að hann náði ekki að tengja nógu vel við efnið, verandi karlkyns kvikmyndagerðarmaður. Þó hann hafi áður gert mynd með kvenkyns aðalleikara, eins og Buffy the Vampire Slayer, sem hann skrifaði handritið að, þá hefur hann sætt gagnrýni fyrir það hvernig hann birtir kvenpersónur í myndum sínum. Þar má nefna sem dæmi Black Widow í Avengers myndunum.

Ekkert er vitað hver muni taka við myndinni af Whedon, en miðað við allt og allt er líklegt að Warner Bros muni nú leita að kvenkyns leikstjóra.