Auðgleymd endurtekning

Í stuttu máli er „Happy Death Day“ hinn prýðilegasti tímaþjófur fyrir unnendur létts grínhrolls en afar fyrirsjáanleg og auðgleymd.

Hin lítt geðþekka Tree (Jessica Rothe) á við einn vanda að stríða og hann endurtekur sig aftur og aftur; Það er alltaf verið að drepa hana. Og á afmælisdeginum sjálfum!

Morgun einn vaknar Tree í rúmi á heimavist Carter‘s (Israel Broussard), skelþunn og gengur út skömmustuleg. Samband hennar við meðlimi systrafélags síns er yfirborðskennt enda, eins og allir menntaskólar í Bandaríkjunum virðast vera, gera þær helst út á útlit, partýstand og kelerí. Á leið sinni í eitt partý bíður hennar grímuklædd vera sem stingur hana til bana. Næsta morgun (en samt ekki) vaknar Tree aftur í rúminu á heimavist Carters og telur sig hafa verið að upplifa svakalegt „Deja Vu“. Þrátt fyrir örlítið breytta atburðarrás endar sama grímuklædda veran á að drepa Tree og henni verður það ljóst að eitthvað skrítið er á seyði. Á endandum fer það ekki á milli mála að einhver snælduóður er á eftir Tree og hún neyðist í að leysa ráðgátuna sjálf og koma í veg fyrir sitt eigin morð.

Samanburður við „Groundhoug Day“ (1993) er óhjákvæmilegur en „Happy Death Day“ róir á aðeins önnur mið þó stutt sé í grínið. Í fyrstu lítur út fyrir að myndin ætli að taka sig mátulega alvarlega og fyrstu tvö morðin á Tree eru ágætlega uppbyggð og ná upp góðri spennu en um miðbikið (ca. fimm mínútum fyrir hlé) breytist tónninn allsvakalega og ljóst er að góðum slatta af húmor verður fleygt inn til að teygja úr sögunni. Þrátt fyrir það leiðist sagan ekki út í neina endemis þvælu en áhorfendum er gert það ljóst að myndin tekur sig ekki of hátíðlega þó grínið virki stundum helst til of meðvitað og úr takt við morðgátuna sem Tree þarf að leysa.

Ráðgátan í „Happy Death Day“ er ágætlega uppbyggð en helst til of einföld og þökk sé frekar fáum persónum er einstaklega auðvelt að giska á sökudólginn hér. Handritinu til hróss þá er ýmsum vísbendingum fleygt inn til að gefa áhorfendum séns til að ráða í lokaniðurstöðuna en þetta er allt saman frekar einfalt að afkóða.

Myndin hvílir nær eingöngu á herðum Jessicu Rothe og hún axlar þá ábyrgð vel. Þó svo að þroskaferli hennar sé afar fyrirsjáanlegt þá skilar leikkonan sínu mjög vel og rétt stemmdir áhorfendur gætu jafnvel hrifist af lærdómnum sem hún dregur í gegnum það að upplifa sama daginn aftur og aftur. „Þegar þú upplifir sama daginn aftur og aftur þá ferðu á endanum að sjá hvers konar manneskja þú ert,“ segir greyið Tree þegar hún gerir sér ljóst hvernig hún hefur komið fram við fólk í langan tíma.

Þegar á botninn er hvolft þá er „Happy Death Day“ ágætis tímaþjófur en lítið meira. Efniviðurinn er langt frá því að vera frumlegur þó svo að hann sé settur inn í hryllings-grínmynd í slægjustíl en ágætlega er unnið úr þessu og áhorfandanum leiðist ekki í þær 90+ mínútur sem myndin tekur frá honum. Það er ekkert ýkja subbulegt hér þar sem myndin er stíluð á yngri markhópinn og passað upp á að hún fái þennan eftirsótta PG-13 stimpil sem þýðir að innkoman verði vafalítið enn meiri enda þurfa táningarnir ekki að sannfæra mömmu og pabba um að koma með.