Douglas heyrði englasöng þegar hann dó næstum því

Bandaríski kvikmyndaleikarinn og framleiðandinn Michael Douglas, 73 ára, segist hafa séð dularfullt en róandi hvítt ljós og heyrt engla syngja, þegar hann drukknaði næstum því þegar hann var að synda í sjónum á meðan hann var við nám í Háskólanum í Kaliforníu á sjöunda áratug síðustu aldar.

„Ég heyrði englasöng, og sá hvítt ljós og svo kom yfir mig mikil værð, þegar ég stóð frammi fyrir dauðanum,“ sagði Douglas við bandaríska blaðið USA Today, í samtali vegna kvikmyndarinnar Flatliners, sem hann framleiðir.

Þrátt fyrir þessa upplifun segir Douglas, sem sigraðist á krabbameini í hálsi árið 2010, að hann trúi ekki á líf eftir dauðann.

„En ég held að við búum yfir einhverri virkni í heilanum sem tekur völdin og gerir okkur auðveldara fyrir að sætta okkur við dauðann,“ bætti Douglas við.

Endurgerð vísindatryllisins Flatliners frá árinu 1990 er nú í bíó hér á Íslandi, og með helstu hlutverk fara Ellen Page og Diego Luna sem leika læknanema sem leika sér við það að kíkja yfir í handanheima með því að stöðva hjarta sitt.

Julia Roberts og Kiefer Sutherland leituðu svara við því sama í upprunalegu kvikmyndinni, sem Douglas framleiddi einnig.