90 mínútur ólifaðar – Stikla

Hinn frábæri gamanleikari Robin Williams hefur ekki verið mjög áberandi nú síðustu ár, en hann hefur þó sést í myndum eins og The Butler, þar sem hann lék Bandaríkjaforsetann Dwight D. Eisenhower.

angriest-620x304

Nú er hinsvegar að verða breyting á, því von er á nokkrum myndum með Williams, þar á meðal myndinni Boulevard, sem verður frumsýnd á Tribeca kvikmyndahátíðinni  í New York í lok þessa mánaðar, og þessari sem við ætlum að fjalla um í þessari frétt, The Angriest Man In Brooklyn.

Í gær var gefin út fyrsta stiklan úr myndinni, sem leikstýrt er af Phil Alden Robinson, sem gerði m.a. Kevin Costner myndina Field of Dreams, en myndin er fyrsta mynd hans í fullri lengd í meira en áratug.

Myndin fjallar um persónu Williams sem er komin með slagæðagúlp og á aðeins 90 mínútur eftir ólifaðar.

Myndin verður frumsýnd í næsta mánuði í Bandaríkjunum. Aðrir leikarar eru m.a. þau Mila Kunis, Peter Dinklage, James Earl Jones, Melissa Leo, Hamish Linklater og Richard Kind.

Kíktu á stikluna hér fyrir neðan: