Prumpandi lík ofbauð áhorfendum

Fjölmargir áhorfendur gengu útaf nýjustu mynd Daniel Radcliffe í Eccles kvikmyndahúsinu á Sundance kvikmyndahátíðinni sem nú stendur yfir. Myndin heitir Swiss Army Man, en þar er prumpandi lík í aðalhlutverki. Radcliffe fer með hlutverk líksins. The Digital Spy  segir frá þessu.

Myndarinnar hefur verið beðið með óþreyju á hátíðinni, og hundruðir manna þurftu frá að hverfa þar sem þeir fengu ekki miða á myndina.

farting

Love & Mercy leikarinn Paul Dano leikur mann sem vingast við líkið prumpandi.

Leikstjórar eru þeir Daniel Kwan og Daniel Scheinert, sem hafa getið sér gott orð fyrir gerð tónlistarmyndbanda.

Scheinert segir að innblásturinn fyrir myndina hafi verið prumpubrandari.

Myndin hefst þegar líkinu skolar upp í fjöru og þegar persóna Dano kemur að kíkja á það þá lifnar líkið við og rekur við. Þeir félagar kyssast einnig á einum stað í myndinni, og líkið fær standpínu.

Óvíst er hvort að það var eingöngu prumpið sem áhorfendum mislíkaði, eða hvort langar umræður aðalleikaranna um sjálfsfróun, einangrun og tilgang lífsins spiluðu inn í.

Í spurningatíma fyrir myndina sagði Radcliffe m.a.: „Það tækifæri að fá að leika dauðan mann í þessu samhengi var hreinlega of spennandi til að hafna því.“