Madden sagður með Bond tilboð á borðinu

Þó að Daniel Craig sé enn James Bond og muni leika njósnarann í síðasta skipti í næstu mynd, þeirri 25. í röðinni, þá ganga stöðugar kjaftasögur um hver muni taka við hlutverkinu af honum, þegar hann skilar inn „leyfinu til að drepa“.

Breska götublaðið The Sun hefur nú komið fram með nýtt nafn, en samkvæmt frétt blaðsins þá er Game of Thrones og Bodyguard leikarinn Richard Madden nú orðinn topp kandídat Bond framleiðandans Barbara Broccoli fyrir hlutverkið. Sagt er að Broccoli búi sig nú undir að gera leikaranum tilboð sem hann geti ekki hafnað.

Madden er sá nýjasti á löngum lista af leikurum sem orðaðir hafa verið við hlutverkið, en þar má nefna leikara eins og Idris Elba, Tom Hardy, Aidan Turner, Tom Hiddleston og í raun alla breska leikara sem hafa verið áberandi síðustu ár.

Bara núna í ágúst var breska pressan sannfærð um að Idris Elba væri maðurinn sem Broccoli væri með augun á, þannig að það er best að taka öllum fréttum með fyrirvara.

Leikstjóri næstu Bond myndar er Cary Fukunaka, sem þekktur er fyrir leikstjórn sjónvarpsþáttanna True Detective. Myndin er væntanleg í bíó í febrúar 2020.