Cumberbatch yfirgefur del Toro

cumberbatchBenedict Cumberbatch hefur samkvæmt heimildum Variety kvikmyndaritsins ákveðið að hætta við að leika aðalhlutverkið í næstu mynd Guillermo del Toro, draugamyndinni Crimson Peak.

Star Trek og Sherlock Holmes leikarinn átti að leika í myndinni ásamt þeim Jessica Chastain, Emma Stone og Pacific Rim stjörnunni Charlie Hunnam, en hætti við af ókunnum ástæðum.

Crimson Peak er fyrsta leikstjórnarverkefni del Toro eftir að hann gerði skrímslatryllinn Pacific Rim, en hún hefur þénað meira en 300 milljónir Bandaríkjadala á alheimsvísu.

Samkvæmt Variety þá leita Legendary fyrirtækið og del Toro nú að öðrum leikara í stað Cumberbatch. Tökur eiga að hefjast í febrúar á næsta ári.

Næst verður hægt að berja Cumberbatch augum í WikiLeaks myndinni The Fifth Estate, en hún verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto í næsta mánuði.