Dómur um Rocky frá 1976 endurbirtur

Í tilefni af frumsýningu hnefaleikamyndarinnar Creed vestanhafs í dag hefur The Hollywood Reporter endurbirt gagnrýni sína um Rocky frá árinu 1976. rocky

Sylvester Stallone leikur Rocky Balboa í báðum myndunum. Í Rocky leikur hann ungan boxara sem fær óvænt tækifæri til að berjast um heimsmeistaratitilinn í hnefaleikum en í Creed leikur hann þjálfara Adonis Creed. Sá er sonur Apollo Creed sem Rocky barðist við í fyrstu tveimur Rocky-myndunum.

Gagnrýnandi The Hollywood Reporter segir myndina Rocky vera sannkallaðan óð til mannsandans og að hún sýni fram á að í Bandaríkjunum er allt mögulegt ef menn hafa nægilega trú á sjálfum sér.

„Á margan hátt þá er Rocky mynd sem ætti að komast í sögubækurnar. Eitt er alla vega ljóst. Myndin hefur gert Sylvester Stallone að heitustu nýju stjörnunni  árið 1976,“ skrifaði hann í gagnrýni sinni.

Hann reyndist sannspár því Rocky hlaut Óskarsverðlaunin sem besta myndin og gat af sér urmul vinsælla framhaldsmynda. Hún skaut Stallone einnig rækilega upp á stjörnuhimininn.

The Hollywood Reporter hefur einnig birt dóm um Creed. Þar er Stallone sagður standa sig einkar vel. Myndin sé formúlkukennd en engu að síður mjög vel heppnuð. Aðalleikarinn Michael B. Jordan fær einnig góða dóma fyrir sína frammistöðu.

Creed er fyrsta myndin þar sem Rocky kemur við sögu, sem Stallone hefur ekki skrifað handritið að sjálfur. Hún verður frumsýnd í janúar hérlendis.