Cory Monteith úr Glee látinn

monteithCory Monteith, einn af aðalleikurum í sjónvarpsþáttunum vinsælu Glee, er látinn 31 árs að aldri.

Samkvæmt E! fréttaveitunni þá dvaldi Monteith á Fairmont hótelinu í Vancouver í Kanada, og kom ekki niður til að skrá sig út á tilsettum tíma. Fljótlega eftir hádegið í gær þá fannst hann látinn og aleinn í herbergi sínu, og hafði þá verið látinn í nokkra klukkutíma.

Samkvæmt lögregluforingjanum Doug LaPard eru engar vísbendingar um neitt misjafnt, og ekki er gefið upp hvað fannst við leit í herberginu.

Monteith skráði sig inn á hótelið 6. júlí og var ekki með unnustunni, meðleikkonu sinni í Glee, Lea Michele, sem sést með honum á meðfylgjandi mynd.

Myndbandsupptökur sýna leikarann koma í hótelherbergið einan undir morgunn. Engin dánarorsök hefur verið gefin út.

Monteith lék Finn Hudson í Glee þáttunum allt frá byrjun árið 2009. Hann fór í meðferð fyrr á þessu ári til að leita sér hjálpar vegna fíkniefnamisnotkunar. Hann hafði talað opinskátt um fíkn sína í eiturlyf, og sagði m.a. að hann hefði byrjað að nota eiturlyf þegar hann var 13 ára og hafi farið í meðferð fyrst þegar hann var 19 ára.

Monteith vann Teen Choice verðlaunin árið 2011 sem besti leikari í gamanþáttum. Leikhópur þáttanna vann Screen Actors Guild verðlaun fyrir besta leikhóp í gamanþáttum árið 2010.

Monteith var þekktur á tökustað Glee fyrir að leggja hart að sér í vinnu, og vera góður drengur, samkvæmt E! fréttaveitunni.

Smelltu hér til að skoða myndasyrpu með leikaranum.