Magic Mike kemur í júní, Soderbergh að hætta?

Steven Soderbergh er furðulegur náungi. Hann er leikstjóri sem vinnur hratt og gerir fjölbreyttar myndir – og síðustu ár hafa verið hans afkastamestu. Hann virðist ekkert ætla að að hægja á sér, sýkingartryllirinn Contagion er enn í bíó, hasarmyndin Haywire er væntanleg í Janúar, og verið var að tilkynna að stripparamyndin Magic Mike komi út í Júní. The Man From UNCLE og Liberace eru svo á teikniborðinu í nánustu framtíð, og segir hann þær sínar síðustu myndir en bætir við „it depends on when you ask me“. Ég trúi því þegar það gerist. Er hann ekki búinn að vera að segja þetta í nokkur ár? Ég held að hann meini þetta alveg, og standist bara ekki freistinguna að taka að sér ný verkefni þegar þau berast.

En nú voru allavega að berast þær fréttir að fyrrnefnd stripparamynd hefði lokið tökum, og Warner hyggist dreifa henni í kvikmyndahús þann 29 júní 2012, en það er merkilegt fyrir þær sakir að þann dag kemur einnig út G.I. Joe: Retaliation, en Channing Tatum fer með aðalhlutverk í báðum myndunum. Magic Mike er annars hálfgert ástríðuverkefni hjá Tatum, en hann framleiðir myndina og er hún byggð á minningum hans frá ferli sínum sem karlstrippari. Mennski símakassinn Alex Pettifyer fer með hlutverk ungs manns sem leiðist inn í strippbransann, og Tatum fer með hlutverk mentorins hans. Þá leikur Matthew McConaughey eiganda strippklúbbsins. Hvorki Tatum né Pettifyer eru beinlínis þekktir fyrir frábærar leikframmistöður sínar, en kannski gefst þeim tækifæri að sýna á sér betri hlið hér. Ef ekki sýna þeir allavega nóg af öðru…