Gagnrýni: Contagion, Real Steel

Stjörnusamkoman Contagion var frumsýnd núna á föstudaginn síðasta og er komin inn umfjöllun um myndina. Einnig má finna dóm um fjölskyldumyndina Real Steel, sem verður heimsfrumsýnd næstu helgi og var forsýnd síðustu helgi. Þar fer Hugh Jackman með aðalhlutverkið.

Hérna er smá brot af samantektinni:

CONTAGION – 7/10

„Contagion er rosalega traust mynd; Vel skrifuð, grípandi á sumum stöðum, skuggaleg á öðrum en almennt raunsæ og athyglisverð. Hún er sennilega ein sterkasta mynd sem hefur verið gerð um veirufaraldur. Helsti gallinn við hana er aðallega sá að maður tengist persónum myndarinnar voða lítið og festist þar af leiðandi ekki jafnmikið inn í dramanu þegar sumir fá vírusinn. Svo gengur það oft og gerist í svona stjörnuprýddum “ensemble” myndum að sumir leikarar fá heilar persónuarkir á meðan aðrir fá bara hálfkláraða prófíla.“

REAL STEEL – 5/10

„Þetta er PG-13-mynd sem liggur pikkföst á milli tveggja ólíkra markhópa. Það er eins og hún sé að reyna að vera eins mjúk og saklaus og einhver Disney-súpa en einnig dökk og hrá eins og Transformers-myndirnar. Ég hefði alveg viljað þetta síðarnefnda vegna þess að hún er stundum óvenju hörð og hefði hún gengið aðeins lengra með það myndi ég ábyggilega kalla hana góða þótt klisjukennd sé. Tónninn er alltof mjúkur í þeim senum sem reyna að vera sætar og hjartnæmar en það kemur alls ekki á óvart frá leikstjóra eins og Shawn Levy. Maðurinn hugsar hvorki um orðspor né virðingu. Hann er bara í Hollywood til að græða og vera ófyndinn. Real Steel er stærsta tilbreytingin hans til þessa, en allt það góða við myndina kemur honum ósköp lítið við.“