Óvænt – The Woods varð Blair Witch

Óvænt uppákoma varð á Comic-Con afþreyingarráðstefnunni í San Diego í gær, þegar Lionsgate framleiðslufyrirtækið bauð upp á sýningu á nýjustu mynd sinni, The Woods.

Þegar ljósin voru slökkt í bíósalnum, áttuðu bíógestir sig á því að í raun var ekki verið að sýna mynd sem heitir The Woods heldur leynilegt framhald/endurræsingu á hinni vinsælu hrollvekju The Blair Witch Project, sem frumsýnd var upphaflega á Sundance kvikmyndahátíðinni árið 1999 og sló rækilega í gegn í kjölfarið.

blair witch valeri

Lionsgate fékk hrollvekjuhöfundana Adam Wingard og Simon Barrett ( The Guest, You´re Next ) til að gera myndina, sem nú heitir einfaldlega Blair Witch, en þeir voru beðnir um að halda verkefninu leyndu þar til nú. Vinnheitið var The Woods, en við birtum einmitt hér á síðunni plakat og kitlu fyrir myndina í síðasta mánuði.

Blair Witch er rétt eins og fyrirrennarinn, um hóp af miðskólakrökkum sem fara í útilegu í hinn skuggalega Black Hills skóg í Burkittsville.

Md. James (James Allen McCune) telur sig sjá systur sína, sem hvarf í fyrri myndinni, á myndbandi á YouTube, og fær vini sína með sér að leita að henni.

Myndin er eins og sú upprunalega gerð eins og um fundið vídeóefni sé að ræða.

Barrett sagði á Comic-Con að á meðan tökum hafi staðið í Vancouver, sem tóku 34 daga, þá hafi enginn leikaranna vitað að um Blair Witch væri að ræða.

„Ég held að þeir hafa haldið að þeir væru í áheyrnarprufu fyrir verstu Blair Witch eftirlíkingu sem gerð hefur verið,“ sagði Barrett og bætti við að bæði hann og Wingard væru miklir aðdáendur fyrir myndarinnar.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan – myndin verður frumsýnd 16. september í almennum sýningum í Bandaríkjunum: