148 síðna afmælisblað Mynda mánaðarins kemur út í dag


Í dag kemur septemberblað Mynda mánaðarins út, en þar er ekkert venjulegt tölublað á ferðinni, heldur tvöfalt afmælisblað í tilefni þess að það er númer 200 í röðinni frá upphafi.

Mikil vinna hefur verið lögð í þetta blað, þar sem fengnir voru aukapennar til að ná að skrifa allt það efni sem er í blaðinu. Meðal efnis er:

-100 uppáhaldsmyndir Íslendinga: niðurstöðurnar úr kosningunni hér á Kvikmyndir.is eru birtar í risastórri 16 síðna umfjöllun, þar sem hver einasta mynd á topp 100-listanum er kynnt.
-Comic-Con 2010: Við fórum á Comic-Con og segjum frá 12 mest spennandi „hinum“ myndunum, auk greina um J.J. Abrams, Joss Whedon og Gullermo del Toro, sem sögðu allir frá framtíðarplönum sínum.
-Björt framtíð á Íslandi: 12 síðna umfjöllun um íslenskt bíó, þar sem er að finna einkaviðtöl við Ragnar Bragason, Pétur Jóhann, Braga Þór Hinriksson og Grím Hákonarson auk umfjöllunar um nokkrar spennandi væntanlegar myndir. Einnig völdum við í samstarfi við nokkra sérfræðinga bestu tónlistarmómentin í íslenskri kvikmyndasögu.
-Marvel vs. DC. Við skerum út úr hvor myndasögurisinn hefur staðið sig betur á hvíta tjaldinu.
-Hvaða ofurhetjur eiga skilið sína eigin mynd? Við komumst að því.
-Auk þess eru viðtöl við Millu Jovovich, Michael Douglas, Drew Barrymore og Mark Wahlberg, auk skemmtilegra greina um stelpumyndir, slasher-myndir, költmyndir og evrópskar myndir. Svona meðal annars.

Í þessu blaði verður svo í fyrsta sinn að finna tæmandi upplýsingar um hvaða nýjar myndir á DVD koma líka út á Blu-ray, vegna uppástungna frá lesendum. Eru þær myndir merktar með Blu-ray-lógóinu í aldursmerkingaslánni. Eins og áður hvetjum við ykkur lesendur til að hafa samband beint við ritstjórann, erlingur@kvikmyndir.is, ef þið lumið á góðum hugmyndum fyrir blaðið.

-EGE