Liam Neeson talar um Dark Knight Rises og Taken 2

Vefsíðan IGN talaði nýlega við írska töffarann Liam Neeson og spurði hvað væri næst á dagskrá hjá kappanum. Aðspurður hvort hann myndi birtast í næstu Batman myndinni, The Dark Knight Rises, sagði Neeson svo ekki vera. Þrátt fyrir að persóna hans úr Batman Begins, Ra’s Al Ghul, hafi hlotið nokkuð blóðug endalok var sá orðrómur kominn á kreik að hann kæmi við sögu í TDKR, einna helst vegna þess að Al Ghul er þekktur fyrir að láta dauðann ekki stöðva sig. „Ég mun ekki leika í þeirri mynd. Ég verð staddur við tökur á Clash of the Titans 2 á sama tíma.“ sagði Neeson.

„Það verður beint framhald.“ sagði Írinn svo um framhaldið af Taken, einni vinsælustu hasarmynd síðari ára. Margir héldu að Taken 2 ætti sér stað fyrir atburði fyrri myndarinnar, en svo verður ekki. Samkvæmt Neeson er handritið í vinnslu og vonast hann til að tökur hefjist snemma á næsta ári.

– Bjarki Dagur