Kjaftur, húmor og persónusköpun

Ég er oft eitthvað svo sjúkur í svona bíómyndir sem gerast allar í afmörkuðu rými og eru annaðhvort byggðar á sviðssýningu eða gefa manni þá tilfinningu að maður sé að horfa á svoleiðis en bara með betri hætti. Það er eitthvað svo spennandi að sjá hvernig saga spilast þegar hún gerist öll á takmörkuðu svæði (sérstaklega í rauntíma) og hefur þess vegna miklu minna af verkfærum til frásagnar, sem er skemmtilega krefjandi en getur um leið matreitt eitthvað magnað ef verkið er vel unnið. Það ert bara þú og persónurnar, og það getur verið miklu meira grípandi en það hljómar. Aðferðir til þess að byggja upp óhefðbundna spennu með samtölum geta oft verið afar hugmyndaríkar.

Það sem kvikmyndaformið hefur fram yfir sviðið er að áhorfandinn er settur beint inn í umhverfið og hasarinn eins og fluga á vegg. Það er allt annað að geta fylgst með svipbrigðum leikara þegar myndavélin getur notað alls kyns aðferðir til að endurspegla tilfinningarnar á skjánum. Þetta á svo sem ekki við um allt enda væri það hneykslandi alhæfing. Þið fattið samt vonandi hvað ég á við.

Nokkrar af mínum uppáhaldsmyndum gerast í lokuðu rými og þess vegna vissi ég strax í byrjun að Carnage væri hugsanlega mynd fyrir mig og sú hugsun missti allar efasemdir þegar ég komst að því að vinur minn, hann Roman Polanski væri að sjá um þetta allt saman. Sá maður hefur kannski ekki alltaf gert gullmola en hann sýnir vinnunni sinni alltaf  mikinn áhuga og þegar hann hefur góðan efnivið í höndunum getur niðurstaðan oft skilað af sér einhverju djúsí og bitastæðu … eins og Carnage er og aðeins fáeinir en alvarlegir veikleikar koma í veg fyrir að hún sé alveg gargandi skylduáhorf.

Það er að vísu einn stór galli sem getur oft fylgt svona myndum og hann getur leitt til þess að viðkomandi mynd annaðhvort gengur fullkomlega upp eða stígur feilspor og lendir á smettinu. Þessi galli lýsir sér þannig að samtölin geta oft verið ótrúverðug þegar þau rembast við það að vera hnyttin og raunveruleg. Þegar samtal virkar á mann eins og það sé of æft þá getur maður alveg dottið úr sögunni og slíkt gerðist stundum á meðan ég horfði á Carnage. Ekki oft en samt nógu oft til að hafa þessi tilgerðarlegu áhrif. Oft er hægt að yfirstíga þessa galla ef leikararnir eru alveg ómótstæðilegir og þeir eru það einmitt flestir hérna.

Christoph Waltz skín enn og aftur bjartar en mótleikarar hans í hlutverki sjálfhverfs manns sem myndi örugglega ekki vera traustur vinur í raun (hugsið um Hans Landa úr Inglourious Basterds í nútímanum ef hann hefði gift sig og átt börn). Almennt er það samt samspilið sjálft sem gerir þessa mynd og Waltz er bara smápartur af því þótt mikilvægur sé. Kate Winslet er að sjálfsögðu yndisleg en það er ekki við öðru að búast þar sem hún er ein besta leikkona sem við höfum. John C. Reilly er sömuleiðis dásamlegur og Jodie Foster mestmegnis nokkuð fín. Foster, hins vegar, fer alveg út af sporinu í lokasenunum. Handritið segir mér að hún eigi að vera kröftug og áhrifarík en ég fann bara fyrir ofleik sem skildi eftir vont eftirbragð (Hvað gerðist, Jodie??).

Samt sem áður, ef það eru leikararnir sem gera myndina þá eru það persónuleikarnir og andlega niðurrifið hjá persónum sem gefa henni rétta kryddið. Maður finnur fyrir því strax að mikil spenna er í loftinu hjá þessum fjórum karakterum og stigmögnunin á umræðunni heldur manni allan tímann í sætinu. Carnage verður þess vegna aldrei nokkurn tímann óáhugaverð eða leiðinleg ef maður nær að festast við deilurnar. Þeir sem gera það ekki munu geispa á 10 mínútna fresti þótt biðin sé ekki löng. Myndin er ekki nema 79 mínútur og fannst mér hún persónulega líða eins og 30. Endirinn er að vísu örlítið máttlaus miðað við uppbygginguna (svo ég tali nú ekki um titillinn) en ef maður grandskoðar hann þá eru skilaboðin alveg nógu fullnægjandi og lokasenan er dásamleg vegna þess að hún breytir sögunni í hálfgerðan brandara – sem ekki allir munu fíla.

Það sem upphaflega byrjar sem týpísk umræða um alvarlegt mál þróast smátt og smátt út í það að hver einasti karakter verður andlega berskjaldaður. Hvor sín hjónin eru ekki lengur saman í liði heldur tvístrast allt og fer í háaloft þegar kúbuvindlar, ælupollar og viskíglös byrja að spila stór hlutverk. Polanski hugsar hverja einustu senu út, hvað umhverfi og rammauppsetningar varða, og handritið (sem er byggt á leiksýningunni God of Carnage eftir Jasmina Reza) er stöðugt að senda manni skilaboð um hvern karakter án þess að stafa hlutina. Það er hægt að ræða um hverja einustu senu í ýtarlegum smáatriðum (fyrir utan það að myndin er í rauninni öll ein stór sena – eða reyndar þrjár, með inngangnum og eftirmálanum) og þetta er algjörlega mynd sem býður upp á alls konar umræður. Hún segir manni alveg helling með svo litlu og það kann Tommi að meta.

Carnage gerir svo margt rétt að það sem mistekst dettur oftar en ekki úr augsýn, fyrir utan alveg kexruglaða frammistöðu hjá Jodie Foster, sem greinilega ætlaði sér að vinna einhvers konar verðlaun fyrir þessa mynd. Þetta er svo sem engin Polanski-snilld en mjög góð Polanski-mynd er aftur á móti betri heldur en margt annað sem maður sér þarna úti.


(8/10)