Steven Spielberg vill Chris Hemsworth

Varla eru það fréttir, hver vill ekki Chris Hemsworth?

En allavega, til þess að taka smá frí frá fréttum um DC ofurhetjur má greina frá því að eftirlætis þrumuguð okkar allra úr Marvel heiminum mun líklega halda áfram að bjarga heiminum á eftirminnilegan hátt í kvikmyndahúsum nær og fjær. Ekki bara í Thor: The Dark World (ég kunni nú bara ágætlega við titillinn Thor 2, en hverju ræð ég), því líkt og fyrirsögnin gefur til kynna hefur Steven Spielberg nú augastað á fyrrum áströlsku sápustjörnunni í aðalhlutverk aðlögunar sinnar á vísindaskáldsögunni Robopocalypse, sem áætlað er að komi í bíó í apríl 2014.

Og um hvað fjallar stykkið? Jú, rétt til getið, vélmenni reyna að taka yfir heiminn, og mannkynið heyjar styrjöld sér til varnar. Spielberg lýsti hugmynd myndarinnar svona fyrr í vetur:

„Þetta er alþjóðlegt stríð á milli manna og véla. Þetta er framtíð sem er að nálgast hraðar en nokkurn óraði fyrir. ‘Robopocalypse’ gerist eftir 15 til 20 ár, þannig þetta verður önnur framtíð sem varðar okkur. Hún er um afleiðingar þess að skapa tækni sem gerir líf okkar auðveldari, og hvað gerist þegar sú tækni verður gáfaðari en við. Þetta er ekki nýjasta þemað og það hefur verið notað í gegnum nánast allar vísindaskáldsögur, en þetta er þema sem samsvarar okkur meira með hverju líðandi ári.“

Það er hughreystandi að heyra það að gamli refurinn áttar sig á því sjálfur að vélmennastríð er ekki beinlínis ferskasta hugmyndin á hlaðborði vísindaskáldskaparhugmynda, þannig að vonandi hefur hann einhverja ferska nálgun í huga sem við höfum ekki séð margoft áður. Að fá Hemsworth inn í aðalhlutverkið er allavega góð byrjun í minni bók.

Það næsta sem ég komst því að finna mynd af Hemsworth með vélmenni