Vasaklútaklisja með markmiðin á hreinu

Það er alveg sama hvað gagnrýnendur segja um myndir eins og The Vow, ummælin skoppast alltaf af markhópnum eins og meinyrði frá blindum krakka sem gerir grín að fötunum manns. Þeir sem eru yfirleitt hrifnastir af svona myndum eru skítsama um dómgreindarreglurnar og þær kröfur sem snobbuðu bíónördarnir setja sér, því þeir vilja oftast sjá eitthvað ferskt og raunsætt og kæra sig þess vegna ekki mikið um silkimjúkar dramafroður sem notar allar ódýrustu leiðirnar til að segja sögur sínar. Þessi mynd á algjörlega erindi í þennan flokk, en hún virðist vita hvað hún er og skammast sín lítið fyrir það. Það væri aðeins öðruvísi ef metnaðarleysið væri gegnsætt og kemistría leikaranna steindauð.

Ef sumir karlmenn fá æluna upp í kokið á rómantískum gamanmyndum, þá munu þeir spreyja henni út á hálftíma fresti yfir svona rómantísku Disney-drama, eins og ég vil kalla það, þar sem hönnun sögunnar er svo kjánalega melódramatísk að maður verður hissa að þetta skuli virka á einhvern. En þetta virkar vissulega á þá sem elska bíómyndalegu Disney-dramatíkina, eins og konur sem horfa ekki mikið á bíómyndir (nema bara þessar klassísku „mömmumyndir“) og þeir sem eru ekki með svartsýnt bein í líkamanum sínum. Þetta snýst samt ekki um að taka bara hvað sem er í sátt, því ef hlutirnir eru vel gerðir, þá er þess virði að hrósa þeim. En markhópur myndar eins og The Vow hundsar oft gallanna alveg eins og urrandi testósterónfjöllin sem neita að trúa öðru en að The Expendables sé harðasta mynd í heimi. Sem hún er ekki.

The Vow er engin Notebook (þar sem hlutirnir voru býsna vel gerðir) en hún stígur framhjá því að vera pínlega væmin vegna þess að aðalleikararnir eru svo einlægir, þannig að hún verður í staðinn bara krúttsprengja, sem getur bæði verið jákvætt eða neikvætt. Myndin er þvinguð og illa skrifuð á köflum, og þó svo að þetta sé byggt á sannri sögu þá skal ég rífa af mér hvert einasta bringuhár (eitt í einu!) ef hún hefur ekki verið endurmótuð frá grunni og dramatíseruð svo sykursæta dramatíkin gangi upp og móti meira fullnægjandi mýkt. Ég er samt svo tregur til að hakka myndinni í spað eins og annar hver karlmaður mun hvort eð er gera, vegna þess að myndin verður aldrei leiðinleg og snertir í rauninni nokkrar áhugaverðar umræður í tengslum við minni og einkenni. Ekkert bilaðslega djúpt, en þó ágætt.

Channing Tatum á margt eftir ólært í leikarabransanum, eins og að breyta um svip, en mér líkar samt pínulítið við hann. Hann hefur kannski ekki skorað mörg stig í karlmennsku fyrir að hafa leikið í myndum eins og þessari, Dear John og Step Up, en kannski er hann svona hataður af mörgum karlmönnum vegna þess að flestar stelpur dýrka hann fyrir að þora að sýna tilfinningar í stað þess að hlaupa beint í stærstu byssurnar. Frekar kýs ég að minnsta kosti að vera öfundsjúkur út í manninn sem fékk að stinga saman nefjum með Amöndu Seyfried og Rachel McAdams.  Í The Vow sýnir Tatum sína venjulegu mjúku hlið og er hann bara nokkuð góður í því. McAdams er sömuleiðis fín og í sameiningu eru óséðir straumar á milli þeirra. Það skiptir öllu máli, og ef maður leggur neikvæðnina til hliðar og kemur sér í kúrustuðið er þetta alls ekki svo slæm rjómamynd.


(6/10)