Pussy Riot í Spring Breakers 2?

Rússneska pönksveitin Pussy Riot er mögulega á leið til Hollywood að leika í framhaldi myndarinnar  Spring Breakers. Pussy Riot skipa þær Nadezhda “Nadya” Tolokonnikova og Maria “Masha” Alyokhinag.

spring breakers

Variety segir frá því að þær stöllur, sem urðu heimsfrægar eftir að hafa leikið pönkbæn gegn Pútín Rússlandsforseta,  í Dómkirkju Krists í Moskvu, og farið í tveggja ára fangelsi í Rússlandi í kjölfarið, séu á leið til kvikmyndahátíðarinnar í Cannes til að ræða við framleiðendur myndarinnar, sem kallast Spring Breakers: Second Coming.

Aðalstjarna fyrri myndarinnar, James Franco, mun ekki leika í þessari framhaldsmynd.

„Leikstjórinn okkar er að koma sérstaklega til að hitta þær Nadya og Maria til að ræða við þær um myndina,“ sagði Chris Hanley framleiðandi myndarinnar við Variety.

„Þar sem það hafa verið einhverjar vangaveltur um að Second Coming sé lélegt framhald, þá get ég sagt að handrit Irvine Welch fyrir myndina inniheldur sterkustu feminísku skilaboðin sem Spring Breakers persónurnar hafa verið með til þessa. Og Nadya og Maria í Pussy Riot eru kraftmiklar raddir í feminisma heimsins.“